Einbreiðar brýr

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 14:26:14 (3226)

1996-02-21 14:26:14# 120. lþ. 94.5 fundur 304. mál: #A einbreiðar brýr# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi RA (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að árekstrar við einbreiðar brýr eru fjarska algengir. Reyndar þarf það varla að koma á óvart miðað við þann mikla ökuhraða sem nú tíðkast á þjóðvegum landsins. En í Morgunblaðinu hinn 6. febrúar sl. er frá því skýrt að helgina á undan hafi í fimmta sinn á sex vikum orðið árekstur á einbreiðum brúm í Vestur-Húnavatnssýslu og átta bifreiðar hafi eyðilagst í þessum árekstrum. Í þessari frásögn kom það líka fram hjá Þorvaldi Böðvarssyni, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Blönduósi, að í þessu tilviki hefðu nýlega verið settar merkingar við brýrnar og þær reyndar tvívegis endurbættar og væru í fullkomnu lagi.

Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar hafa 108 slys orðið við einbreiðar brýr á undanförnum sjö árum og þar af eru átta brýr þar sem orðið hafa fleiri en fimm slys og allt upp í 17 slys við sömu brúna. Mér er líka kunnugt um að þær brýr þar sem orðið hafa fleiri en tvö slys á seinustu sjö árum eru 23 talsins á stofnvegum og heildartjón er áætlað að hafi numið um 109 millj. kr. Auðvitað er það augljóst mál að óvanir ökumenn og þeir sem sjaldan aka á stofnvegum utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis vara sig ekki alltaf á því þegar vegur getur mjókkað mjög snögglega við brýr. Einbreiðar brýr eru því háskalegar slysagildrur sem verða að hverfa.

Spurningar mínar til hæstv. samgrh. miða að því að kortleggja þennan vanda og meta kostnaðinn við endurbætur og eru svohljóðandi:

1. Hvar eru einbreiðar brýr á stofnvegum? --- Ég vil taka það fram að ég er ekki að ætlast til þess að hæstv. ráðherra telji þær allar upp því við nánari athugun hef ég komist að raun um að þær munu vera á annað hundrað.

2. Er ekki tímabært að markvisst verði unnið að breikkun einbreiðra brúa hvarvetna þar sem aðliggjandi vegir eru tvíbreiðir?

3. Hver er áætlaður kostnaður við breikkun einbreiðra brúa á stofnvegum?