Einbreiðar brýr

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 14:35:06 (3228)

1996-02-21 14:35:06# 120. lþ. 94.5 fundur 304. mál: #A einbreiðar brýr# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[14:35]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið áhugaverð umræða um mikið mál sem eru þessar einbreiðu brýr á stofnvegum. Þetta vandamál er til staðar um land allt. Ég tók eftir því í máli hæstv. ráðherra að hann nefndi 139 brýr á þessum fræga hringvegi, en þá eru Vestfirðir væntanlega eftir því að sá málsiður hefur verið tekinn upp að undanskilja einhverra hluta vegna Vestfirði ævinlega þegar verið er að tala um þennan hringveg eins og Vestfirðir séu ekki hluti af landinu.

Spurningin sem við þurfum auðvitað að svara er einfaldlega þessi: Hvernig eigum við að glíma við þann kostnað sem þessu er samfara, ef við ætlum að gera þarna sérstakt átak sem ég er alveg sammála þeim sem hér hafa talað að er mikil þörf á.

Í öðru lagi þetta: Ætlum við að gera þetta átak á grundvelli slysatíðni á brúnum eða ætlum við að gera þetta á einhverjum öðrum grundvelli eins og t.d. því að margar þessar brýr þola mjög illa þunga umferð eins og fram kom í máli hæstv. samgrh. og víða er þetta orðinn mikill flöskuháls á vegum landsins. Ég þekki t.d. á Vestfjörðum að sums staðar kemur það í veg fyrir það að hægt sé að flytja með hagkvæmum hætti vörur milli Ísafjarðarsvæðisins og Reykjavíkur að það eru nokkrar brýr þar á leiðinni sem ekki þola eðlilega umferð.

Þess vegna þurfum við að svara þeirri spurningu hvernig við ætlum að gera þetta átak. En það einkennilega eða það átakanlega í þessu máli er það að slysatíðnin virðist mest vera á brúm sem liggja að vegum þar sem vegirnir eru góðir, þar sem þeir eru tvíbreiðir og malbikaðir og menn fara um á miklum hraða og aka svo að þessum einbreiðu brúm.