Einbreiðar brýr

Miðvikudaginn 21. febrúar 1996, kl. 14:38:38 (3230)

1996-02-21 14:38:38# 120. lþ. 94.5 fundur 304. mál: #A einbreiðar brýr# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur

[14:38]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég vil bæta við það sem ég sagði áðan að vitaskuld fækkar einbreiðu brúnum eftir því sem vegagerðinni vindur fram. Ætli það séu ekki ein 14--15 ár síðan síðustu einbreiðu brýrnar voru byggðar á hringveginum þar sem umferð er mest og það hittist svo á að Norðurl. v. fór sérstaklega illa út úr því í þeim skilningi að miklar brúarframkvæmdir á þessum síðustu árum einbreiðu brúnna voru einmitt í Norðurl. v.

Ég hygg að það sé alveg laukrétt sem báðir þingmenn hafa sagt að nauðsynlegt sé að reyna að gera sér grein fyrir því hvernig hægt sé að fækka þessum einbreiðu brúm. Auðvitað er líka mikil slysahætta af malarvegum, sérstaklega á hringveginum, og nauðsynlegt að reyna að ljúka honum jafnframt því sem við reynum að gera okkur grein fyrir því hvernig rétt sé að ráðast í það verkefni að fækka brúnum og koma í veg fyrir slys á þeim sem eftir verða. Um þetta hefur töluvert verið fjallað. Eftir hið hörmulega slys sem varð nú fyrir skömmu á Dalsá fól ég Vegagerðinni að gera áætlun um það hvernig hægt væri að flýta brúargerð, reyna að finna einhverja vinnureglu um það í hvaða röð slíkar brýr skyldu teknar og yrði þá vitaskuld að velta fyrir mér þeim brúm sem ódýrt er að endurbyggja og liggja á fjölförnum leiðum, en aðrar brýr verða auðvitað lagfærðar um leið og vegirnir eru byggðir upp.