Viðskiptabann á Írak

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:07:54 (3234)

1996-02-26 15:07:54# 120. lþ. 95.1 fundur 199#B viðskiptabann á Írak# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil beina spurningu til hæstv. utanrrh. varðandi viðræður sem nú hafa hafist á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um endurskoðun viðskiptabanns á Írak. Það munu standa yfir viðræður um að opna að einhverju leyti fyrir olíusölu Íraka, skilyrt þó og bundið við að tekjum af slíkum viðskiptum verði ráðstafað til matarkaupa og lyfjakaupa vegna þeirrar neyðar sem almenningur í Írak býr við. Enginn deilir um að þeim fjármunum verði ekki betur varið. Ástand mála er eins og kunnugt er skelfilegt. Það hefur verið upplýst af ábyrgum aðilum eins og Alþjóða Rauða krossinum og fleirum að svo er komið að yfir hálf milljón barna er fallin úr hungri í Írak.

Fyrir Alþingi, nánar tiltekið í utanrmn., liggur tillaga frá ræðumanni og fleirum um að Íslendingar beiti sér fyrir því á alþjóðavettvangi að viðskiptabannið verði endurskoðað. Því miður hefur lítið frést af tillögunni síðan hún fór til hv. utanrmn. í haust. En í ljósi þess að viðræður eru í gangi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna --- og okkur hv. þm. finnst væntanlega skipta máli hver afstaða Íslands verður, hvar Ísland leggur sitt lóð á vogarskálar --- þá leyfi ég mér að spyrja hæstv. utanrrn. hver sé afstaða hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar í þessum málum og hvort ekki megi treysta því að hæstv. ráðherra sjái til þess að Ísland styðji það að opnað verði fyrir viðskipti á nýjan leik þannig að a.m.k. að einhverju leyti verði aflétt þeirri ánauð sem almenningur í Írak býr við.