Viðskiptabann á Írak

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:14:39 (3238)

1996-02-26 15:14:39# 120. lþ. 95.1 fundur 199#B viðskiptabann á Írak# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil undirstrika tvennt. Að sjálfsögðu er minn málflutningur og annarra sem hvatt hafa til endurskoðunar á viðskiptabanninu ekki tilkominn vegna samúðar með Saddam Hussein og stjórn hans. Það er alveg á hreinu. En menn verða að hafa í huga að til eru margar mismunandi útfærslur á því að beita þjóðir viðskiptaþvingunum. Sú leið sem var valin gagnvart Írak var leið algers viðskiptabanns. Það var altækt. En í öðrum tilvikum hafa menn oft og tíðum reynt að halda opnum farvegi fyrir t.d. matvælakaup, lyfjakaup og slíkan almennan neysluvarning, þótt sett væri á viðskiptabann, vopnasölubann og jafnvel bann á tækniiðnað og annað því um líkt. Það verður því að skilgreina hvernig á að beita þessu tæki.

Herra forseti. Ég hvet til þess að í framtíðinni verði það haft í huga, hverjir sem í hlut eiga, Írakar, Serbar eða aðrir slíkir, að menn skoði aðstæður almennings í viðkomandi löndum og reyni að beita þessu tæki þannig að það hafi ekki í för með sér jafnólýsanlegar hörmungar samfara þeim siðferðilegu álitamálum sem þeim tengjast eins og raunin hefur orðið á í Írak.