Vaxtamál

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:18:35 (3240)

1996-02-26 15:18:35# 120. lþ. 95.1 fundur 200#B vaxtamál# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:18]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um að fyrirspurninni sé beint til rétts aðila, en skal (Gripið fram í: Til hvers á að beina henni?) samt reyna að svara henni.

Eins og réttilega kom fram hjá hv. þm. hækkuðu óverðtryggðir vextir á skammtímamarkaði hér á landi og gildir þá einu hvort það var í bankakerfinu eða hjá hinu opinbera. Nú hafa þessir vextir verið að lækka aftur og allt bendir til þess að óverðtryggðir vextir á skammtímamarkaði geti lækkað á næstunni. Það sem veldur því, ekki eingöngu en meðal annars, er að sjálfsögðu það að lánsfjárþörf ríkisins er mun minni nú en hún hefur verið oftast áður og hefur farið verulega minnkandi.

Það mun í fyrsta skipti gerast á þessu ári um langan aldur að skuldir ríkisins mældar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu munu lækka á yfirstandandi ári. Það sem getur skipt máli í þessu sambandi, eins og réttilega kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, er hvar ríkið aflar lánsfjár. Á síðustu árum hefur það ekki verið gefið upp í lánsfjárlögum heldur hefur verið byggt á áætlunum ráðuneytisins. Ástæðan fyrir því að þetta hefur ekki verið gefið upp er einmitt sú að ríkið vill vera óbundið af því hvar það tekur lán, allt eftir því hvar heppilegast er eftir markaðsaðstæðum. Þeirri stefnu verður fylgt á yfirstandandi ári. Ég get fullvissað hv. þm. um að ríkið mun að sjálfsögðu gera sitt til þess að ná vöxtunum frekar niður enda er það svo að öll efnahagsleg rök benda til þess á þessari stundu að vextir geti lækkað á næstunni eins og skýrt og skilmerkilega kom fram í skýrslu sem Þjóðhagsstofnun gaf út fyrir skömmu.