Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 13:31:55 (3259)

1996-02-27 13:31:55# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[13:31]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar markar þáttaskil. Póstsamgöngur hafa verið reknar af ríkinu síðan 1776 og síminn síðan 1906. Pósturinn var rekinn í beinum tengslum við dönsku póstþjónustuna og þótti óhjákvæmilegt að ríkið hefði hönd í bagga til þess að fyllsta öryggis væri gætt og unnt að tryggja að bréf og sendingar kæmust á leiðarenda. Ég ætla ekki að rekja sögu póstþjónustunnar en minni á að 1782 hóf fyrsti landpósturinn göngu sína og 90 árum síðar eða 1872 var skipaður forstjóri póstmála. Árið eftir eða 1873 var fyrsta íslenska frímerkið gefið út og 1874 var Alþjóðapóstsambandið stofnað.

Frv. gerir ekki ráð fyrir breytingum í sambandi við rekstur póstþjónustunnar að teknu tilliti til þess að einkarétturinn fellur til ríkisins en Pósti og síma hf. verður falið að sjá um þjónustuna eins og verið hefur. Sérstakt frv. verður flutt um það efni. Það er nú í athugun hjá þingflokkum stjórnarflokkanna og er nauðsynlegt að það fái afgreiðslu um leið og það frv. sem hér liggur fyrir. Raunar er það sama að segja um frv. til breytinga á fjarskiptalögum sem nú er verið að leggja síðustu hönd á og verður lagt fyrir ríkisstjórnina á næstu dögum. Það lýtur einungis að því að færa einkaréttinn yfir til ríkisins sem aftur mun fela Pósti og síma þann rekstur sem honum tengist.

Póstlögin í heild sinni eru nú í endurskoðun með hliðsjón af þeim breytingum sem eru í mótun á Evrópska efnahagssvæðinu. Rekstur póstsins færist óðfluga inn í hringiðu samkeppninnar eftir því sem árin líða. Annars vegar er það bein afleiðing tækniframfara. Mér skilst að nú sé faxið orðið gamaldags og tölvupóstur hafi leyst það af hólmi að nokkru leyti og svo höfum við Internetið eða Alnetið sem breiðir sig yfir allt. Auk þess eru fyrirtæki komin til sögunnar sem keppa við Póstinn í dreifingu fjölda sendinga og auglýsingapésa, pakka- eða hraðsendinga. Af þessum aðilum er mjög þrýst á það að einkaréttur Póstsins á hefðbundnum bréfasendingum verði felldur niður. Hér eru ekki lagðar til neinar breytingar í þá átt. Á hinn bóginn tel ég óhjákvæmilegt og legg á það áherslu að nauðsynlegt geti orðið í náinni framtíð að skjóta fleiri stoðum undir rekstur Póstsins og treysta þær sem fyrir eru.

Það gæti við athugun komið í ljós að afnám einkaréttarins þætti skynsamleg leið að því marki. Þannig hefur einkarétturinn verið afnuminn í Svíþjóð og Finnlandi og annars staðar er lögð áhersla á að breyta póstþjónustunni í hlutafélag eða sjálfstætt fyrirtæki sem starfi úti á hinum frjálsa markaði eftir þeim lögmálum sem þar gilda eins og hér er lagt til. Aðalatriðið er að Póstur og sími hf. verði áfram fjárhagslega sjálfstætt og traust fyrirtæki þó svo að fjárhagur fyrirtækisins verði fullkomlega aðskilinn fjárhag ríkissjóðs og að sú starfsemi sem rekin er á einkaréttarlegum grundvelli verði algjörlega aðskilin annarri starfsemi sem rekin er á markaðsgrundvelli og í samkeppni við fyrirtæki og einstaklinga.

Haustið 1991 átti ég þess kost að fara á Telecom 91 í Genf sem er umfangsmesta fjarskiptasýning í veröldinni og haldin á fjögurra ára fresti. Þá lá það í loftinu að hverri símastofnuninni á fætur annarri í Evrópu yrði breytt í hlutafélag eða að minnsta kosti í hálfopinbert fyrirtæki sem starfaði samkvæmt markaðslögmálinu og væri óháð ríkissjóði. Ég sannfærðist þá um að óhjákvæmilegt væri að breyta Pósti og síma í hlutafélag og hafði raunar skipað nefnd 12. ágúst 1991 til þess að endurskoða lög um stjórn og starfrækslu Póst- og símamálastofnunarinnar, nr. 36/1977, einkum með hliðsjón af réttarstöðu stofnunarinnar. Í starfi sínu skyldi nefndin m.a. taka mið af breytingum sem orðið höfðu og væntanlegar voru á réttarstöðu póst- og símastjórna í nágrannaríkjunum. Lárus Jónsson, fyrrv. alþingismaður, var formaður nefndarinnar en jafnframt áttu í sæti í nefndinni Ólafur Tómasson, póst- og símamálastjóri, Guðmundur Björnsson, aðstoðarpóst- og símamálastjóri, og skrifstofustjórarnir Halldór S. Kristjánsson og Ragnhildur Hjaltadóttir.

Nefndin skilað bráðabirgðaskýrslu 5. mars 1992 og greinargerð um breytingar á réttarstöðu Pósts og síma 16. apríl 1993. Meginniðurstöður nefndarinnar voru þær að Póst- og símamálastofnun yrði breytt í hlutafélag. Greinargerð nefndar Lárusar Jónssonar er efnismikil og varpar ljósi á þær öru breytingar sem orðið hafa í fjarskiptamálum í nálægum löndum síðustu árin. Þróunin hefur haldið áfram eins og þar var spáð og nú er svo komið að nánast engin opinber símastofnun finnst í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og pósturinn er á sömu leið.

Í hugum okkar Íslendinga margra hefur síminn fram að þessu verið sú stofnun sem við höfum átt bágt með að hugsa okkur sem hlutafélag. Ástæðan er sú að lagning símans um okkar dreifbýla land var á sínum tíma mjög erfið og dýr svo að einungis ríkið hafði burði til að standa undir fjárfestingunni. Einnig hefur verið talið óhugsandi að erlend símafyrirtæki hygðu á samkeppni hér innan lands. Rekstrarlegt öryggi símans hefur með öðrum orðum verið hafið yfir allan vafa fram undir þetta. En nú er öldin önnur. Fjarskiptatækninni fleygir fram svo óðfluga að engin landamæri standa í vegi fyrir henni. Ef við tökum dæmi af nágrannalöndunum rétt til gamans þá heyja norsku, sænsku og dönsku símafyrirtækin heilagt fjarskiptastríð hvert í annars landi rétt eins og Ólafur digri, Önundur Svíakonungur og Knútur ríki væru þar lifandi komnir.

Við þessar kringumstæður í hinum harða markaðsheimi fjarskiptanna sem fer enn harðnandi á næstu árum --- hinn 1. janúar 1998 verður opnað fyrir samkeppni í talsímaþjónustu hér á landi --- er óhugsandi að Póstur og sími geti staðist álagið sem opinber stofnun. Þá yrði Póstur og sími að lúta fjárlögum og búa við það ósjálfstæði í ákvarðanatöku sem opinberar stofnanir hljóta að búa við. Við skulum taka dæmi af ríkisbönkunum. Rekstur þeirra er vitaskuld flókinn og viðkvæmur. Það hefur verið ákveðið að breyta þeim í hlutafélag til þess að auka sjálfstæði þeirra og jafna samkeppnisstöðuna á peningamarkaðnum. Enginn hefur talað um að ná sama marki með því að breyta Íslandsbanka í ríkisbanka. Enn síður hefur nokkrum dottið í hug að breyta öllum þessum þrem bönkum í opinbera stofnun sem sé rekin eftir fjárlögum eins og B-hluta stofnanir ríkisreiknings. Þó leyfi ég mér að fullyrða að rekstur Pósts og síma í dag sé ólíkt flóknari heldur en hefðbundins ríkisbanka í því efnahagslega jafnvægi sem við Íslendingar búum nú við.

Póst- og símamálastofnunin verður að breytast í Póst og síma hf. til þess að hann geti brugðist skjótt við breytingum á markaðnum, mætt nýrri samkeppni, ekki síst erlendis frá með nýjum hætti, og ráðist í fjárfestingar á öðrum forsendum en áður. Í því er innifalið að Póstur og sími hf. þarf að geta gerst hluthafi í erlendum fjarskiptafyrirtækjum ef ástæða þykir til og þannig tekið þátt í atvinnustarfsemi þótt hún teygi sig til annarra landa.

Loks þarf Póstur og sími að hafa möguleika á að vera þátttakandi í þróunar- og markaðsstarfi íslenskra fyrirtækja erlendis t.d. með því að leggja fram fjármagn og tækniþekkingu. Ég hef verið þeirrar skoðunar að einungis með því að breyta Pósti og síma í hlutafélag geti hann haldið stöðu sinni og verið áfram burðarás á fjarskiptasviði hér á landi. Það hefur komið upp hvort rétt sé að nota tækifærið og skipta stofnuninni í tvö fyrirtæki á sviði pósts og fjarskipta. Ég hef talið það óráðlegt og það er að minnsta kosti alveg ljóst að slík skipting stofnunarinnar í tvennt þarfnast mikils undirbúnings og mikils tíma. Álitamálin eru mörg. Ég á t.d. erfitt með að sjá það fyrir mér hvernig starfsemi Pósts og síma verði slitin í tvennt í einhverri skyndingu í sjávarplássunum og í hinum dreifðu byggðum landsins.

Nú er svo komið að það kostar jafnmikið undir sendirbréf milli tveggja húsa við Laugaveginn og milli Flateyrar og Hornafjarðar. Gjaldskrá fyrir langlínusamtöl hefur farið hríðlækkandi þannig að símtöl hafa lækkað í verði um 80% á 10 árum. Frekari jöfnun símkostnaðar er fram undan. Ég hef heyrt þær raddir að þessi þróun kunni að snúast við ef Póst- og símamálastofnun yrði breytt í hlutafélag. Það hefur einkum verið rökstutt með því að fyrirtæki kunni að skjóta upp kollinum og reyna að fleyta rjómann ofan af með því að þjóna fjölmennustu stöðunum en láta dreifbýlið eiga sig. Þetta á við um póstinn. Þessi ótti er ástæðulaus vegna þess að almenni bréfapósturinn er bundinn einkarétti sem verður í höndum Pósts og síma hf. en undir eftirliti samgrn. varðandi verð og gæði póstþjónustunnar og fjárhagslega aðskilinn öðrum rekstri Pósts og síma hf. Samsvarandi ótti hefur komið fram varðandi GSM-þjónustuna fyrst í stað og jafnvel talsímaþjónustuna síðar meir.

Ég svara þessu með því að minna á að Póstur og sími er vel undir samkeppnina búinn. Hér á landi er eitt fullkomnasta fjarskiptakerfi í Evrópu og símaþjónustan innan lands á lægra verði en í öðrum löndum. Við höfum búið í haginn fyrir framtíðina með því að gerast hluthafar í sæstrengjum frá Bandaríkjunum um Kanada og Ísland til Evrópu og ljósleiðari hefur verið lagður um landið en næsta skref er að gera það mögulegt að flytja breiðbandsþjónustuna inn á heimili og fyrirtæki. Þannig mun hinn fullkomni tæknibúnaður Pósts og síma og komandi samkeppni áfram tryggja lágt verð á símaþjónustu hér á landi en auðvitað má ekki slaka á, auðvitað verður áfram að hafa vakandi auga á tækniþróuninni og breytingunum á markaðnum.

Mér þykir hlýða, herra forseti, að víkja að helstu efnisatriðum frv. Hér er lagt til að stofna hlutafélag um eignir og rekstur Póst- og símamálastofnunar, Pósts og síma hf. Eitt hlutabréf skal gefið út sem nemur 75% af bókfærðu eigin fé Póst- og símamálastofnunar og skal það vera í eigu íslenska ríkisins og sala þess óheimil án samþykkis Alþingis. Hlutafélaginu skulu lagðar til allar eignir og skuldir Póst- og símamálastofnunar, réttindi, skuldbindingar og viðskiptavild.

Í 2. gr. frv. segir að tilgangur félagsins sé að veita hvers konar fjarskiptaþjónustu, póstþjónustu og fjármálalega umsýslu á grundvelli laga og reglugerða sem þar gilda svo og að reka aðra skylda starfsemi. Þá skal félaginu einnig heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. --- Er hér m.a. haft í huga samstarf við erlend símafyrirtæki eins og ég vék að áður í ræðu minni eða samvinna við íslensk fyrirtæki á fjarskiptasviði, m.a. með markaðssókn erlendis fyrir augum.

Í 2. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir að Póstur og sími hf. geti stofnað nýtt félag eða félög til þess að annast ákveðna þætti þeirrar starfsemi sem nú er rekin af Póst- og símamálastofnun. Þá er áskilið, og það er mikilvægt, að slíkt hlutafélag skuli alfarið vera í eigu Pósts og síma og þannig haldið opnu að unnt sé að aðskilja rekstur pósts og síma ef það kynni síðar að verða talið hagkvæmt.

[13:45]

Gert er ráð fyrir því að stjórn Pósts og síma hf. skuli skipuð sjö aðalmönnum og sjö til vara og að samgrh. fari með eignaraðild ríkissjóðs að Pósti og síma hf.

Skv. 8. gr. skulu fastráðnir starfsmenn Pósts og símamálastofnunar eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá því, sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá stofnuninni, enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér hjá stofnuninni. --- Þetta er mikilvægt ákvæði og undirstrikar að breytingin úr stofnun í hlutafélag er ekki gerð í því skyni að fækka starfsfólki Pósts og síma eða til að ganga gegn hagsmunum þess.

Biðlaunaréttur opinberra starfsmanna hefur verið mjög í umræðunni vegna þeirrar þróunar að verið er að breyta opinberum stofnunum í hlutafélög. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir þeim mun sem er á uppsagnarfresti og biðlaunum. Biðlaunarétturinn er bundinn því skilyrði að starfið sé lagt niður og viðkomandi fái þannig svigrúm til þess að leita sér að nýju starfi nema honum sé gefinn kostur á öðru sambærilegu starfi. Þegar stofnun er breytt í hlutafélag án þess að samtímis verði nokkrar breytingar á starfs- eða þjónustusviðinu er auðvitað ekki um það að ræða að störf séu lögð niður. Þess vegna er gert ráð fyrir því í frv. að biðlaunarétturinn færist frá stofnuninni Pósti og síma til hlutafélagsins Pósts og síma hf. Starfsfólkið er þá jafn vel sett og áður og getur treyst á biðlaunaréttinn eins og hann er skilgreindur í lögum. Þá er gert ráð fyrir því að fastráðnir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar, sem hafa áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, megi vera áfram í sjóðnum miðað við þann rétt sem þeir hafa áunnið sér þegar breytingin um stofnun í hlutafélag tekur gildi.

Eftir að þetta frv. hafði verið lagt fyrir þingflokka stjórnarflokkanna átti ég fund með yfirmönnum Póst- og símamálastofnunar og forustumönnum allra starfsmannafélaga hjá Pósti og síma. Þar var farið yfir efnisatriði frv. og auðvitað komu upp ákveðin álitamál um hvernig framkvæmdinni skyldi hagað við breytinguna í hlutafélag. Það var m.a. spurt um það hvernig haldið yrði á samningsréttinum. Ég lýsti því yfir að ég teldi það vel koma til greina að Póstur og sími hf. semdi við samtök starfsmanna Pósts og síma hf. sem sjálfstæðan samningsaðila ef vilji þeirra stæði til þess. Með því yrði svipaður háttur hafður á og nú er t.d. hjá bankamönnum. Jafnframt lýsti ég því yfir að ráðuneytið væri reiðubúið til þess að hefja viðræður við fulltrúa starfsmanna og yfirmenn Pósts og síma um hagsmunamál starfsmanna og ýmis álitaefni og ákvörðunarefni sem taka þyrfti á við breytinguna í Póst og síma hf. Ég vonast til að þær viðræður geti hafist næstu daga.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. sem hér liggur fyrir. Eins og fram kemur er gert ráð fyrir að Póstur og sími hf. skuli taka til starfa eigi síðar en 1. okt. 1996. Þessi dagsetning endurspeglar hversu brýnt þetta mál er. Við undirbúninginn hef ég reynt að halda öllum aðilum málsins upplýstum um mikilvægi þess. Af þeim sökum var fulltrúum starfsmannafélaga við Póst- og símamálastofnun boðið til Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur og fulltrúum allra þingflokka boðið til Noregs og Danmerkur til að kynna sér þær breytingar sem þar hafa orðið á póst- og fjarskiptasviði.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn. og hlýt að láta í ljós þá von að frv. nái fram að ganga nú á vori komanda.