Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 13:50:58 (3260)

1996-02-27 13:50:58# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[13:50]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að ein meginástæða þess að breyta í hlutafélag væri sú að stjórnendur fyrirtækisins gætu brugðist skjótt við í rekstrinum. Ef mig misminnir ekki þá hefur Póstur og sími, ég vil segja Vegagerðin líka, starfað með þeim hætti að yfir þeim hefur ekki verið nein stjórn. Báðar þessar stóru ríkisstofnanir hafa heyrt beint undir ráðherra og embættismannavaldið sem þar hefur ráðið hefur haft frelsi til að bregðast skjótt við á öllum sviðum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða atriði eru það sem knýja á um þessa breytingu til þess að þeir geti brugðist við hverju? Því mér finnst að þessir ágætu embættismenn hafi haft öll þau tök sem bestu einkafyrirtæki hafa til að bregðast við ýmsum aðstæðum sem kunna að koma upp.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra lýsti því hér yfir að hann gæti hugsað sér og vildi vinna að því starfsmenn væru áfram í Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Ég vil enn fremur spyrja hann að því, sem hann hér impraði á í sambandi við samningsréttinn, hvort hann muni áfram eiga viðræður og reyna að festa það mál þannig að starfsfólkið búi við öryggi á þessum óvissutíma, hvort hann muni halda áfram á næstu vikum viðræðum við starfsfólk um þetta mikilvæga atriði. Það skiptir nefnilega miklu máli þegar menn eru að fara í breytingar á svo stóru fyrirtæki, þar sem starfa á þriðja þúsund manns, að menn geri það af myndarskap og í samkomulagi við starfsmenn.