Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 13:53:12 (3261)

1996-02-27 13:53:12# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[13:53]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mér er ljúft að ítreka það að hugur minn stendur til þess að eiga gott samstarf við starfsfólk um þær breytingar sem fram undan eru og hvernig á samningsrétti verði haldið og þar fram eftir götunum.

Um hitt, hvað ég eigi við með því að Póst- og símamálastofnun geti ekki brugðist nógu skjótt við, þá er það svo eins og hv. þm. er kunnugt að ef við tökum dæmi af þessu ári og hinu næsta þá er undirbúningur að næsta fjárlagaári þegar hafinn og það er ætlast til þess að ráðuneytið hafi skilað fjmrn. tillögum um fjárfestingu og hvað annað á vordögum. Síðan eru slík mál að veltast í kerfinu þangað til fjárlög eru ákveðin í desembermánuði og þar með er ákveðið hvernig fjárfestingum skuli háttað á næsta ári, t.d. hvaða heimildir Póstur og sími hafi til að kaupa hlutabréf í öðrum fyrirtækjum og þar fram eftir götunum. Það hefur komið í ljós að fyrirtæki úti á markaðnum hafa ekki sveigjanleika og sjálfstæði til að geta staðist til lengdar. Þetta er skýringin á því að í öllum grannlöndum okkar hefur símamálastofnunum verið breytt í hlutafélög eða jafngildi hlutafélaga og þetta er skýringin á því að í öðrum löndum eru menn óðum að breyta póstinum sömuleiðis í hlutafélag eða ígildi hlutafélags.

Auk þess eins og hv. þm. er kunnugt liggur það fyrir samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði að talsíminn verður gefinn frjáls 1. jan. 1998 og það eru þau tímamörk sem okkur eru sett að því leyti.