Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 13:58:04 (3264)

1996-02-27 13:58:04# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[13:58]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég óska hæstv. samgrh. pólitískrar erni og langlífis og vona að hann verði á meðal okkar sem munum verða hérna eftir aldamótin. En það frv. sem hér er til umræðu lýtur að grundvallaratriðum og það er nauðsynlegt að afstaða ráðherrans til þeirra liggi skýr fyrir.

Það sem mun áreiðanlega valda mestum deilum þegar við ræðum frv. eru réttindamál starfsmanna. Ég minnist þess að þegar við vorum saman í stjórn á síðasta kjörtímabili, ég og hæstv. samgrh., þá var tveimur stofnunum sem ríkið átti breytt í hlutafélag, annars vegar Síldarverksmiðjum ríkisins og hins vegar Sementsverksmiðju ríkisins. Þá var farin ákveðin leið sem þáv. stjórnarlið taldi fullnægja ákvæðum 14. gr. laga nr. 38/1954 en hún varðaði biðlaunaréttinn. Síðan hefur það gerst að fallið hefur dómur í deilu sem spratt út af því. Fyrir skömmu var kveðinn upp dómur í máli starfsmanns SR-mjöls gegn ríkinu og þar er það alveg skýrt að staða hjá hlutafélagi getur ekki talist sambærileg við stöðu hjá ríkinu. Þess vegna spyr ég hæstv. samgrh.: Telur hann að 8. gr. þess frv. sem við erum að ræða sé í samræmi við hinn nýuppkveðna dóm eða vill hann lýsa því yfir úr þessum stóli að sá dómur sé rugl?