Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 13:59:42 (3265)

1996-02-27 13:59:42# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[13:59]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er röskur maður og vill ákveðin svör. Í þessu frv. er ekki gert ráð fyrir því að leggja biðlaunaréttinn niður eins og gert hafði verið ráð fyrir í frv. þegar Síldarverksmiðjum ríkisins var breytt í hlutafélag heldur að biðlaunarétturinn haldist. Hér er enn fremur um almennar aðgerðir að ræða.

Ég álít að 8. gr. frv. standist eins og hún er hér lögð fyrir og hef á bak við mig lögfræðileg álit um þau efni. En eins og hv. þm. veit erum við ekki endanlegir dómarar í slíku máli ef stefnt yrði. Mitt mat er að þessi ákvæði standist og ég legg áherslu á að hér er ekki um það að ræða að leggja biðlaunaréttinn niður. Ég vil enn fremur vekja athygli á þeim mun sem er á þessu frv. og hinu. Hér er gert ráð fyrir því að Póstur og sími hf. verði áfram í eigu ríkisins, eitt hlutabréf verður gefið út og það er auðvitað mikil sérstaða í sambandi við það hlutabréf.