Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:03:37 (3269)

1996-02-27 14:03:37# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, RA
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:03]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Frv. það um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar vekur margar spurningar. Ein er að sjálfsögðu sú sem hér var vikið að í andsvari rétt áðan og snýr að samningsrétti starfsmanna, ekki síst á þeim tímum þegar réttindamál opinberra starfsmanna eru yfirleitt í uppnámi. Önnur er sú hvers vegna hæstv. samgrh. hefur kosið þá leið að ætla sér að skipa alla stjórnarmenn væntanlegs hlutafélags sjálfur.

Ég tel þó aðrar spurningar ekki síður mikilvægar eins og t.d. þá hver þörfin sé á þessari breytingu. Er brýn þörf á henni? Er eitthvað sem kallar á það að þessi breyting sé gerð?

Í öðru lagi: Hver er stefna hæstv. ríkisstjórnar í málefnum Pósts og síma? Ekki einungis hugsun hæstv. samgrh., heldur stefna ríkisstjórnarinnar í heild. Því miður liggur það ekki fyrir í þessu máli. Hæstv. samgrh. lýsti því yfir við umræður á hv. Alþingi í gær að hann sæi skipulag Póst- og símamálastofnunarinnar til frambúðar þannig að þar yrði eitt hlutabréf í eigu ríkisins. Hins vegar sagðist hann ekki geta gefið loforð um það að einhver annar en hann kynni að leggja fram frv. um hið gagnstæða. Í orðum hans fólst ótvírætt að hann mundi ekki flytja slíkt frv. En hver er stefna Sjálfstfl.? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar? Það er spurning sem okkur varðar ekki síður um.

Yfirlýsing hæstv. ráðherra er vissulega fagnaðarefni þar sem Póst- og símamálastofnunin er eitt allra mikilvægasta þjónustufyrirtæki landsmanna. Það er mjög arðbært fyrirtæki og skilar ríkissjóði á hverju ári æðimörgum hundruðum millj. kr. Ég get bara nefnt sem dæmi að í fjárlögum þessa árs er þessari stofnun ætlað að skila í ríkissjóð 735 millj. kr. Þessi upphæð, þ.e. skil stofnunarinnar í ríkissjóð, hefur oft verið verulega miklu hærri, komist upp undir einn milljarð á ári. Þar að auki er greiðsluafgangur stofnunarinnar áætlaður 634 millj. Arður stofnunarinnar er ekkert smáræði í sameiginlegan sjóð landsmanna.

Það kemur fram í greinargerð frv. að búnaður og þekking stofnunarinnar er tvímælalaust á við það besta sem gerist í veröldinni. Ég tel því að allir skynsamir menn verði að berjast gegn því af fyllstu hörku að þetta fyrirtæki verði einkavætt. Við megum ekki eiga það á hættu að þetta fyrirtæki lendi á almennum hlutabréfamarkaði og komist kannski síðar meir í hendur erlendra auðfélaga sem hirði arðinn af 90 ára uppbyggingarstarfi í stað þess að arðurinn lendi í sameiginlegum sjóði landsmanna allra.

Hvers vegna er þá verið að gera þessa miklu breytingu á stofnuninni og hvaða þörf er á því að hún sé gerð? Ég held að flestir verði að viðurkenna að hlutafélag með einu hlutabréfi, þar sem einn maður á síðan að ráða og skipa í raun og veru alla stjórnarmenn viðkomandi hlutafélags, er afskaplega sérstætt rekstrarform og á sér ekki mörg fordæmi. Ég hygg að þau séu ekki fleiri en tvö eða þrjú hér á landi og þá fyrst og fremst Áburðarverksmiðjan sem var breytt í þetta form fyrir fáum árum, m.a. með mínu mótatkvæði, og Sementsverksmiðjan sem var ríkisfyrirtæki en var breytt í hlutafélag fyrir nokkrum árum. Ég held að sú breyting hafi litlu skilað og hafi verið ákaflega hæpin. Ég held að þetta einkennilega fyrirbrigði, hlutafélag með einu hlutabréfi, sé mjög sérkennileg hugmynd sem menn þurfi að hugleiða vandlega áður en þeir fara að feta þá braut í stórum stíl. Auðvitað stofna menn hlutafélög vegna þess að menn ætla sér að dreifa eignaraðildinni. Til þess eru hlutafélög að menn ætla sér að fá það rekstrarform í hendur sem gerir mönnum kleift að hafa eignaraðilana marga og hafa lögskipuð samskipti þeirra í fullu samræmi við viðkomandi hlutafjárlög. Til þess eru hlutafélögin.

Hæstv. ráðherra nefndi áðan Landsbankann og það var ágætt dæmi. Landsbankinn er nefnilega ekki hlutafélag. En hann er heldur ekki fyrirtæki sem við sjáum á fjárlögum, hann er ekki í B-hluta fjárlaganna. Þegar ráðherrann spurði að því í andsvörum áðan hvort einhverjum hefði dottið í hug að breyta Landsbankanum í þess háttar fyrirtæki sem við sæjum í B-hluta fjárlaga, hefði verið miklu nær að hann spyrði sjálfan sig að því hvort ekki kæmi til greina að breyta Póst- og símamálastofnuninni í það rekstrarform sem einkennir Landsbankann. Það er einmitt millistig á milli hreins ríkisfyrirtækis eins og Póst- og símamálastofnunin hefur verið og svo aftur ríkisfyrirtækis í hlutafjárformi eins og Áburðarverksmiðjan er. Það er hið eðlilega millistig og gæti einmitt mjög vel átt við í þessu tilviki. Uppi eru kröfur um að fyrirtæki þetta verði gert sjálfstæðara og það eigi auðveldara með að taka sjálfstæðar ákvarðanir. Ef menn eru að leita að rekstrarformi sem uppfyllir hvort tveggja í senn að ríkið eigi fyrirtækið áfram en fyrirtækið öðlist sjálfstæði og aukið svigrúm, þá er einmitt rekstrarform Landsbankans hið kjörna form í því skyni.

Ég nefni annað ágætt dæmi úr okkar þjóðfélagi sem er Landsvirkjun. Hún er reyndar ekki einungis í eigu ríkisins, heldur er hún sameignarfyrirtæki ríkis og sveitarfélaga í hlutföllunum 55:45%. En hún er sjálfstætt fyrirtæki og sérstaklega tekið fram í lögunum að þar sé um að ræða sjálfstæðan réttaraðila með sjálfstæðan fjárhag, sjálfstætt reikningshald og stjórn sem Alþingi kýs.

Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að þróun fjarskipta hefur verið afar ör á undanförnum árum. Losað hefur verið um opinberar hömlur á fjarskiptum, frjálsræði hefur verið að aukast og samkeppni hefur verið að stóraukast. Allt er þetta eðlileg þróun og ekkert við því að segja. Ég efast heldur ekkert um að það kann að vera bráðnauðsynlegt að endurskoða skipulag Pósts og síma. Það kann að vera óhjákvæmilegt að breyta rekstrarfyrirkomulagi söludeildar Pósts og síma sem á í samkeppni við einkaaðila í stórum stíl. Það getur líka vel verið að ýmsir þættir í rekstri Pósts og síma séu þess eðlis að þeir liggi það nærri einkamarkaðnum að þar sé um að ræða hreinan samkeppnisiðnað eða samkeppnisrekstur og því óhjákvæmilegt að breyta rekstrarfyrirkomulagi þar á einstökum sviðum. Það getur t.d. verið þörf á því að Póstur og sími stofni dótturfyrirtæki eða starfsemi þess sé skipt upp í sjálfstæðar einingar eða þá fyrirtækið stofni smærri fyrirtæki með öðrum fyrirtækjum eða í samvinnu við innlenda eða erlenda aðila. Ég hef ekkert á móti því að slíkt sé kannað, það kann að vera hárrétt að þörf sé á slíku. En ég legg á það áherslu að allt þetta má gera án þess að Póstur og sími sé gerður að hlutafélagi. Sumt af þessu mætti gera einfaldlega með ákvörðun stofnunarinnar og viðkomandi ráðherra og heimild frá fjmrh. Í mörgum tilvikum mundi það eitt nægja. Meira þarf nú ekki til.

Í öðrum tilvikum þyrfti hugsanlega heimild í fjárlögum. Í enn öðrum tilvikum þyrfti hugsanlega að breyta lögum um Póst og síma eða setja sérstök lög. Þá mætti mín vegna hugsanlega stíga það spor að gera Póst og síma að sjálfstæðari stofnun en hún er í dag í eigu ríkisins.

[14:15]

Í öllum tilvikum teldi ég hins vegar réttast að stjórn Pósts og síma yrði annaðhvort kosin á Alþingi eða hún yrði skipuð samkvæmt tilnefningu, t.d. frá fleiri ráðuneytum en samgrn. Það gæti vel komið til greina að tvö, jafnvel þrjú ráðuneyti ættu fulltrúa í stjórn Pósts og síma. Eins gæti Alþingi átt nokkra fulltrúa í stjórn Pósts og síma þótt Alþingi ætti ekki þar alla fulltrúana, það kæmi þar fram sem fulltrúi neytendanna. Eins getum við hugsað okkur að fulltrúar stéttarsamtaka og fulltrúi Neytendasamtaka ættu þar sæti, að ég tali ekki um fulltrúa starfsmanna sem ég teldi á margan hátt mjög eðlilegt að væru þar, einn eða jafnvel fleiri. En hitt, að einn hæstv. ráðherra skipi sjö pólitíska kommisara sína sem síðan er skipt út þegar skipt er um ráðherra, tel ég afar óheppilegt og óviðfelldið fyrirkomulag að ekki sé meira sagt. Ég held einmitt að það geri Póst- og símamálastofnunina miklu ósjálfstæðari en hún þyrfti að vera að hafa ráðherravaldið þannig yfir sér að stjórnin sé öll kosin af viðkomandi ráðherra.

Í þessu samhengi hlýtur að koma í hugann það sem bar hér á góma í andsvörum áðan, þ.e. jöfnun símkostnaðar. Það hefur verið baráttumál Alþb. um langt skeið að knýja fram jöfnun símkostnaðar hér á landi. Á því sviði hefur náðst verulegur árangur á seinustu 10--15 árum. Fyrir tveimur árum var staðan samt sem áður sú að dýrustu samtölin voru um það bil fjórum sinnum dýrari en þau ódýrustu. Munurinn var 1:3,8 og ég efast um að þetta hlutfall hafi neitt breyst undanfarin tvö ár. Ég hygg að sá ójöfnuður sé enn fyrir hendi að dýrustu þriggja mínútna samtölin séu enn upp undir fjórum sinnum dýrari en ódýrustu þriggja mínútna samtölin hér á landi. Mishá gjöld eftir svæðisnúmerum er mismunun sem á að afnema, þau eru ekkert annað en leifar frá löngu liðinni tíð þegar símaþjónustan var handvirk. Ég tel löngu tímabært, með þeirri tækni sem Póstur og sími ræður yfir, að þessi mismunun hverfi úr sögunni. En ég hlýt að spyrja mig eins og margir aðrir: Verður auðveldara að ná því markmiði eftir að þessi breyting hefur átt sér stað? Ég óttast að eftir hana sé viss hætta á því að þetta markmið fjarlægist. Ég vil þó ekki útiloka neitt og ég tek eftir því að hæstv. ráðherra hefur skotið inn í frv. grein sem á að auðvelda honum að kljást við vandamál af þessu tagi. Þar er gert ráð fyrir því að sé lagt í framkvæmdir eða rekstur vegna almannaheilla, í öryggisskyni fyrir landsmenn eða vegna byggðasjónarmiða sem ljóst er að ekki skila arði, þá skuli gera um slíkt samning milli ríkisstjórnarinnar og Pósts og síma. Ég veit að vísu ekki hvort þessi grein á við í þessu tilviki. Ég tel ekki að hér séu byggðasjónarmið á ferðinni, heldur einfaldlega hrein réttlætissjónarmið. Það er ósanngirni og óréttlæti sem ekki á að þrífast að skattleggja landsmenn sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu en þurfa auðvitað ekki síður að ná í stjórnarstofnanir ríkisins á höfuðborgarsvæðinu en þeir sem þar búa. Ég óttast að það geti orðið svolítið snúnara og kosti meira vafstur að ná þessu markmiði eftir að þessi breyting hefur verið gerð. Í dag er hægt að gera þetta nánast með einu pennastriki ráðherrans. Það þarf ekki annað til. Það kostar auðvitað eitthvað, en miðað við þann gríðarlega rekstrarafgang sem hefur verið af Pósti og síma á að vera auðvelt að ná þessu marki.

Ég vil að lokum segja það eitt um afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna til þessa máls að áður en við veitum svör um afstöðu okkar til frv., teljum við að ýmsum spurningum þurfi að svara. Okkur sýnist alveg ljóst að frv. er gallað í núverandi gerð og má þá enn minna á spurningarnar sem snúa að réttindum núverandi starfsmanna Pósts og síma. Hefur verið samið við starfsmenn um réttindamálin? Það er ljóst af orðum hæstv. ráðherra sem hann viðhafði áðan að svo er ekki. Samningsréttur starfsmanna er enn í lausu lofti. Vissulega má úr því bæta og ég efast ekki um að hæstv. samgrh. vill vel í þeim efnum. Þetta er samt laus endi sem verður að teljast galli á frv.

Stjórnarfyrirkomulagið er annar verulegur ágalli og yfirleitt fæ ég ekki séð að það sé nein aðkallandi nauðsyn að Póstur og sími sé skipulagður í það horf sem hér er gerð tillaga um. Í öllu falli ættu menn að geta tekið sér góðan tíma til að velta fyrir sér hver eðlilegasta leiðin sé í þessum efnum. Ég minni á það að fortíð Sjálfstfl. í einkavæðingarmálum er harla svört. Breyting á Pósti og síma í hlutafélag hlýtur auðvitað að vekja vissa tortryggni. Hæstv. ráðherra þarf ekki að vera undrandi á því. Sporin hræða og fyrrv. þm. Sjálfstfl. og núv. bankastjóri Landsbankans lýsti því yfir fyrir skömmu að hæstv. sjútvrh. hefði selt Síldarverksmiðjur ríkisins á verði sem varla næði hálfvirði raunverulegra verðmæta. Ég endurtek því að sporin hræða og ég tel nauðsynlegt að kanna þetta mál mjög ítarlega í nefnd, kanna önnur hugsanleg rekstrarform. Í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem ráðherrann hefur gefið um að ekki sé ætlunin að selja þetta eina hlutabréf, er greinilega hægt að velja önnur rekstrarform og ég tel einnig nauðsynlegt að væntanleg stjórn fyrirtækisins verði með lýðræðislegum hætti.