Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:36:14 (3276)

1996-02-27 14:36:14# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:36]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf sennilega að ítreka spurningu mína þótt hún væri mjög skýr. Hún var svona: Telur hv. þm. að núverandi rekstrarform Pósts og síma gangi ekki upp í því viðskipta- og efnahagsumhverfi sem fjarskiptafyrirtæki eins og Pósti og síma er búið? Ég heyrði vel hugleiðingar hans í fyrri ræðunni sem hann síðan endurtók í þeirri síðari um að hann væri opinn fyrir ýmsum breytingum. En ég heyrði hann ekki svara þeirri spurningu minni hvort hann teldi slíkar breytingar óhjákvæmilegar, hvort hann teldi óhjákvæmilegt að breyta þeirri B-hluta stofnun sem við köllum nú Póst og síma í annað form, í fyrirtæki sem hann eftir atvikum gæti kallað sameignarfyrirtæki, sjálfstætt ríkisfyrirtæki eins og Landsvirkjun eða eitthvað annað. Að vísu finnst mér það ekki mjög eftirsóknarvert í ljósi þeirra umræðna sem hafa farið fram um viðskipti eigenda Landsbankans við bankastjóra Landsbankans í því skyni að reyna fá þá til þess að hlýða fyrirmælum um lækkun vaxta. Mér finnst það ekki gott veganesti í þeirri umræðu sem hér á sér stað um það að hægt sé að hafa mjög góð tök á sjálfstæðu fyrirtæki eins og Landsbankanum og þess vegna sé eðlilegt að breyta rekstrarformi Pósts og síma í þá átt. (SJS: Á það ekki að vera sjálfstætt?)