Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 14:51:26 (3280)

1996-02-27 14:51:26# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[14:51]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki langan tíma til þess að fara yfir þessi mál en ég þakka hv. þm. fyrir spurningarnar. Ég get hins vegar sagt honum það strax að ég get ekki svarað þeim öllum því að ýmis atriði sem hann ræddi eru í umræðu og á vinnslustigi. Ég get þess vegna ekki fjallað neitt sérstaklega um þau og þar vil ég kannski fyrst og fremst nefna bankamálin. Eins og hann minntist á er sérstök nefnd í gangi um þau mál og ég hef ekki forsendu til þess að ræða þau mál hér og nú.

Það er rétt að það hefur verið afstaða mín að það ætti að skilja að Póst og síma. Í frv. er gert ráð fyrir því að svo verði þegar frá líður en við eigum eftir að fjalla um með hvaða hætti það verður.

Hvað varðar starfsmannamálin þá sagði ég í ræðu minni áðan að í samgn. yrði fjallað um þau mál. Í frv. kemur fram ákveðin lína um það, starfsmenn hafa gert athugasemdir sem ég geri ráð fyrir að samgn. muni að sjálfsögðu fjalla um þannig að ég mun ekki fara nánar út í þá sálma hér og nú en vísa til þeirrar vinnu sem þar mun fara fram.