Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 15:20:04 (3287)

1996-02-27 15:20:04# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:20]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði um það til hvers einkarétturinn næði nú. Hann nær í stuttu máli á fjarskiptasviði til grunnnetsins og talsímans og verður svo til 1. janúar 1998. Á póstsviðinu nær hann til lokaðra bréfa innan við 350 g ef ég fer rétt með, en á vegum Evrópusambandsins er nú verið að athuga með póstþáttinn og liggur ekki ljóst fyrir hver niðurstaða í því verður. Það gæti jafnvel verið að einkaréttarsviðið yrði eitthvað fært út, en það mun vonandi liggja fyrir síðar á þessu ári.

Hv. þm. sagði áðan að það hefði verið skýlaust í fyrri drögum að frv. meðan hann studdi þá ríkisstjórn sem þá var að hlutabréfin skyldu föl og væri það á valdi ráðherra að selja hlutabréfin ef Pósti og síma yrði breytt í hlutafélag. Þetta er ekki rétt. 8. gr. eins og hún var í þeim drögum hljóðaði svo:

,,Við stofnun og til ársloka 1997 skulu öll hlutabréf í félaginu vera eign ríkissjóðs. Eftir þann tíma tekur Alþingi ákvörðun um hvort og í hve miklum mæli hlutabréf skuli seld.``

Það er alveg ljóst að samkvæmt fyrri drögum var það á valdi Alþingis eins að ákveða hvort hlutabréf yrðu seld. Þetta er þess vegna misskilningur hjá hv. þm., eða rangminni. En á hinn bóginn er hér valið að hlutabréf skuli einungis vera eitt. Við kusum að gera það nú til þess að tryggja framkvæmdina og ég vonast til þess að þingmenn skilji að sú aðferð er öruggari og lýsir eindregnari vilja en hin fyrri útgáfan.