Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 15:24:51 (3289)

1996-02-27 15:24:51# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:24]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan mun það verða svo eftir 1. janúar 1998 að samkvæmt ákveðnum reglum verður það á valdi samgrh. að heimila aðgang að grunnnetinu.

Um hitt atriðið sem hér var sagt í sambandi við 2. mgr. 2. gr., og var þá verið að ræða um aðskilnað pósts og síma, vil ég leggja áherslu á það sem þar segir um að heimilt sé að stofna nýtt félag eða félög til þess að annast ákveðna þætti í starfsemi Póst- og símamálastofnunar, eða Pósts og síma hf. eins og þá verður, sem alfarið verði í eigu þess. Það er því alveg ljóst að ekki er gert ráð fyrir að slík félög verði seld úti á markaðnum þrátt fyrir það sem hv. 11. þm. Reykn. gaf í skyn áðan, eins og ég skildi hann.

Ég held að það sé líka alveg ljóst að það verður verkefni stjórnar Pósts og síma hf. og forstjóra þess og æðstu manna að velta því fyrir sér hversu hratt skuli gengið í þá átt að aðskilja rekstur póstsviðs og fjarskiptasviðs. Ég hygg að sú verði þróunin hér á landi eins og annars staðar og það verði talið hagkvæmt til lengri tíma litið. Það er hins vegar mjög mikið verk, tímafrekt verk og þarf að undirbúa vandlega. Það verður ekki hrist fram úr erminni á nokkrum mánuðum.

Ég get auðvitað ekki heldur fullyrt hið gagnstæða, að við Íslendingar kjósum að fara þar aðra leið. Þetta mál hefur ekki verið athugað gaumgæfilega. Rekstrarforsendur liggja ekki fyrir né hagræðið af því að halda stofnuninni í einu lagi eða kljúfa hana í tvennt eftir fjarskiptasviði og póstsviði.