Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 15:27:05 (3290)

1996-02-27 15:27:05# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:27]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eftir öðru að það skuli ekki hafa verið athugað áður en þetta frv. var lagt fram hvort það væri hagkvæmt og arðbært að skipta þessari stofnun upp í tvö eða fleiri svið, heldur á að skoða það seinna. Það er auðvitað lykilatriði að minni hyggju að hv. alþm. og Alþingi fái um það nokkra vitneskju hvaða áform séu uppi um það. Hæstv. ráðherra segir að svo verði ekki á næstu mánuðum en eru þá áform uppi um það á næsta ári? Fá hv. alþm. einhverjar upplýsingar um það á hvaða forsendum slíkt gerist, hver réttarstaða starfsmanna yrði ef svo færi o.s.frv.? Virðulegi forseti, á þessu stigi máls er auðvitað ekki fullnægjandi að menn segi einfaldlega: Þetta hefur ekki verið skoðað, en við eigum eftir að kíkja á það mál. Og það er ekki hlaupið að því. Þetta er stórt og flókið mál. Þetta er lykilatriði sem þarf að liggja fyrir áður en frv. af þessum toga er afgreitt, áður en við veitum hæstv. ráðherra þetta víðtæka og altæka umboð til þess að gera nánast hvað sem honum dettur í hug við fyrirtækið, skipta því í tvennt eða þrennt eða jafnvel upp í 20 hluta. Þetta er því spurning sem hæstv. ráðherra getur ekki vísað frá sér með almennum orðum á borð við þau sem hann lét frá sér fara áðan. Það er hreinlega ekki fullnægjandi, virðulegi ráðherra.