Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 15:44:49 (3296)

1996-02-27 15:44:49# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:44]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti það mjög athyglisvert sem fram kom hjá hv. þm. að honum er umhugað um að brjóta upp Póst- og símamálastofnun. Það kom fram í ræðu hv. þm. að hann vildi í fyrsta lagi skilja póstinn algerlega frá síma- eða fjarskiptaþætti Póst- og símamálastofnunar og hugsaði sér að póstþjónustan yrði rekin sérstaklega sem sérstök opinber stofnun.

[15:45]

Þá kom það fram hjá hv. þm. að hann hugsaði sér að hluta af fjarskiptasviði símamálastofnunar yrði breytt í hlutafélag en í þriðja lagi lýsti hv. þm. þeirri skoðun sinni að rétt væri að ljósleiðarinn yrði séreign ríkisins eftir sem áður og félli ekki undir hið nýja hlutafélag. Það liggur því fyrir frá þessari stundu að hv. þm. hugsi sér að Póst- og símamálastofnun verði a.m.k. skipt upp í þrjá þætti. Má vera að hv. þm. hafi jafnframt í huga að t.d. póstfaxið verði enn einn þátturinn og sala á fjarskiptabúnaði enn einn þátturinn eins og komið hefur fram og þingmaðurinn vitnaði til. Mér finnst þetta vera mjög athyglisverð hugmynd og væri fróðlegt að fá um það upplýsingar. Ég geri ráð fyrir að það komi kannski í ljós síðar í umræðunni hvort þetta sé stefna Þjóðvaka gagnvart Póst- og símamálastofnun að hún skuli með þessum hætti brotin upp, samkeppnisstaða stofnunarinnar í heild sinni veikt og raunar brotin upp hvort sem við horfum til samkeppni erlendis frá eða vaxandi samkeppni innan lands. Með því yrði starfsöryggi starfsfólks stefnt í hættu og stofnunin yrði ekki nema svipur hjá sjón. Mér finnst þetta mjög merkilegar hugmyndir og átti satt að segja ekki von á þeim.