Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 15:51:49 (3300)

1996-02-27 15:51:49# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, KH
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[15:51]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það hefur lengi legið í loftinu að stjórnunar- og rekstrarformi Pósts og síma yrði breytt og það er rétt að taka það fram strax í upphafi að ég er ekkert mótfallin því í sjálfu sér. Mér finnst það að mörgu leyti eðlilegt og sjálfsagt. Það er hins vegar stóra spurningin hvort það er rétta leiðin sem hér er lögð til, þ.e. að gera Póst og síma að hlutafélagi og kem ég að því síðar. En breytingar af einhverju tagi eru trúlega nauðsynlegar.

Hins vegar er mér það undrunarefni eins og fram hefur komið í máli flestra sem talað hafa á undan mér hversu óljóst og losaralegt allt er í þessu frv. miðað við þann undirbúning sem málið hefur fengið. Sá undirbúningur hefur staðið í mörg ár og verið í höndum sérfræðinga og helstu ráðamanna á þessu sviði og fróðleikur, beinar upplýsingar og ráð sótt til annarra landa þar sem breytingar hafa gengið yfir á undanförnum árum. Það hefði því mátt búast við nánast skotheldu frv. með greinargóðum skýringum og rökstuðningi en því er ekki að heilsa. Rökstuðningur og skýringar eru í rauninni afar fátæklegar. Það er bagalegt því að það er hreint ekki sama hvernig að þessu máli er staðið. Við verðum að geta áttað okkur betur á afleiðingum þessara breytinga fyrir neytendur, fyrir starfsfólk og fyrir ríkissjóð. Þær afleiðingar eru fjarri því að vera ljósar eftir lestur þessa þingmáls.

Rökin fyrir nauðsyn þess að breyta Pósti og síma í hlutafélag eru þau að það hafi orðið svo ör þróun í fjarskiptatækni og jafnframt aukist frjálsræði í fjarskiptum sem hvort tveggja leiðir til verulega aukinnar samkeppni á þessu sviði. Því sé nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að gera Pósti og síma kleift að fylgjast með tímans straumi og allri þessari þróun og búa fyrirtækið undir að mæta þeirri samkeppni sem er í vændum. Reyndar er svo í hinu orðinu tekið fram að grannt hafi verið fylgst með þessari þróun, stofnunin Póstur og sími hafi yfir að ráða búnaði og þekkingu til fjarskiptaþjónustu til jafns við það sem best gerist í löndum Evrópu og sé jafnvel um margt í fararbroddi. Þetta mun rétt vera. T.d. var Ísland fyrsta landið í heiminum til þess að taka í notkun stafrænt símkerfi um allt land. Sá merkilegi áfangi náðist sem sagt þrátt fyrir ríkisfjötrana og ég verð að segja að mér er satt að segja ekki kunnugt um nein tilvik þar sem ríkisrekstur Pósts og síma hefur reynst fyrirtækinu sérstakur fjötur um fót.

Mikið er talað um sjálfstæði ríkisstofnana en það er a.m.k. að hluta til einfaldlega ákvörðunaratriði hvernig farið er með stjórnun og ákvörðunarvald í ríkisfyrirtækjum og ég á bágt með að skilja að hlutafélagshugmyndin sé aleina leiðin. Það er margítrekað að hlutafé skuli allt vera í eigu ríkisins og sala þess óheimil án samþykkis Alþingis eins og fram kemur í 1. gr. frv. Ég vil segja um það efni að það er afar brýnt að ganga svo frá að ekki komi til sölu án þess að það verði gert með lagabreytingu í tengslum við sérstakt frv. þar um þannig að það verði raunverulega fjallað um málið á Alþingi sérstaklega en ekki aðeins í tengslum við fjárlagagerð, þ.e. að sett verði inn ein setning í heimildargrein um það að heimilt sé að selja hlutabréf í eigu ríkisins. Þetta kemur fram í skýringum við 1. gr. að það þurfi breytingar á þessari grein laganna og það er spurning hvort það er ekki eðlilegt að það verði þá einfaldlega í greininni sjálfri svo menn þurfi ekki að fara að leita að skýringum á því hvað sé átt við með þessu.

Svo er annað sem vefst fyrir mér. Eigandi hlutafjárins verður einn, a.m.k. fyrst um sinn, og hlutabréf aðeins eitt. Samt segir í 6. gr., með leyfi hæstv. forseta:

,,Stjórn Pósts og síma hf. skal skipuð sjö aðalmönnum og sjö til vara. Þeir skulu kosnir á aðalfundi ár hvert. Ef félaginu verður skipt í tvö félög í samræmi við niðurlagsákvæði 2. mgr. 2. gr. skulu stjórnir beggja skipaðar á sama hátt.

Samgrh. fer með eignaraðild ríkissjóðs á Pósti og síma hf.``

Þá er spurningin: Hver situr aðalfund? Ég sé ekki betur en þar verði hæstv. samgrh. dálítið einmana nema ætlunin sé að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eigi rétt til setu á aðalfundi hins nýja Pósts og síma. Ég bið hæstv. samgrh. að upplýsa mig og þingheim um þetta atriði, hverjir eiga rétt til setu á aðalfundi hins nýja fyrirtækis ef þetta frv. verður að lögum.

Ég endurtek að ég sakna þess að fá ekki betri skýringu og rök fyrir því að þessi leið hefur verið valin því að þau hljóta náttúrlega að vera fyrir hendi. Mér er ómögulegt að kalla það fullnægjandi rök að hér er nánast sama fullyrðingin endurtekin æ ofan í æ í greinargerðinni, það er að samkeppnishæfni fyrirtækisins verði að auka. Punktur. Þetta er endurtekið með örlítið breyttu orðalagi í gegnum alla greinargerðina og í athugasemdum við frumvarpsgreinar. Dæmigerð eru upphafsorðin í þeim kafla greinargerðarinnar sem ætlað er að fjalla um meginniðurstöðu nefndarinnar sem undirbjó frv. en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Nefndin komst að þeirri meginniðurstöðu að hagkvæmast sé og raunar nauðsynlegt að gera Póst- og símamálastofnunina sem sjálfstæðasta til þess að auka samkeppnishæfni í þeim þjónustugreinum sem hún annast.

Nefndin taldi enn fremur að sjálfstætt atvinnufyrirtæki á þessu sviði gæti veitt landsmönnum ódýrari og betri þjónustu en ella og yrði jafnframt traustari vinnustaður fyrir starfsfólk.``

Hvers vegna sjálfstætt fyrirtæki á þessu sviði er betur í stakk búið til að veita ódýrari og betri þjónustu og jafnframt verið traustari vinnustaður fyrir starfsfólk er gersamlega órökstutt og ég lýsi eftir rökstuðningi hæstv. ráðherra um þetta atriði. Það er staðreynd að íslenska Póst- og símamálastofnunin hefur staðið sig harla vel í flestum greinum. Við skulum láta símaskrárruglið liggja á milli hluta svo og ýmsar hremmingar sem menn hafa lent í hjá innheimtunni og sjálfsagt má tína fleira til. Það er staðreynd að systurstofnanir á Norðurlöndunum líta hingað öfundaraugum vegna alls þess sem hér hefur gerst í tæknimálum og vegna þess hve lágir taxtarnir eru fyrir þá þjónustu sem veitt er. Því miður er nærtækasta skýringin á lága verðinu sú hversu laun starfsfólksins eru lág. Því sé ég ekki alveg fyrir mér hvernig nýr og breyttur Póstur og sími hf. ætlar að fara að því að bjóða upp á ódýrari og betri þjónustu. En kannski getur hæstv. samgrh. skýrt það síðar í umræðunni og ég óska eftir því að hann geri það.

Svona heldur greinargerðin áfram með fullyrðingum á borð við það sem stendur í þessum sama kafla og ég vitnaði í áðan, með leyfi hæstv. forseta: ,,Auka þarf sjálfstæði póst- og símaþjónustunnar hér á landi í því skyni að þessar þjónustugreinar geti betur staðist aukna samkeppni erlendis frá.`` Og aðeins neðar: ,,Augljóst er að stjórnendur sjálfstæðs íslensks fyrirtækis á sviði póst- og fjarskiptaþjónustu geta á mun auðveldari hátt brugðist við síbreytilegum aðstæðum á markaði og segja má að sjálfstætt hlutafélag á þessu sviði yrði að öllum líkindum mun arðbærara fyrirtæki, samkeppnishæfara og jafnframt áhugaverðari vinnuveitandi fyrir starfsfólk heldur en ríkisstofnun með svipuðu sniði og verið hefur.``

Þá komum við að viðkvæmasta þætti þessa máls, þeim þætti sem alltaf er erfiðastur við formbreytingu af þessu tagi, þ.e. því sem snýr að starfsfólkinu. Hjá Pósti og síma starfa nú um 2.400 manns, u.þ.b. 900 í hvoru félagi, þ.e. Félagi ísl. símamanna og Póstmannafélaginu, um 400 félagar munu vera í ASÍ og 200 í Félagi háskólamanna. Það er með þetta fólk eins og fleira starfsfólk hjá ríkinu að flest er það á lágum launum en með þolanleg réttindi, réttindi sem það hefur samið um við ríkisvaldið og sætt sig við lág laun á móti, réttindi eins og æviráðningu, biðlaun, fleiri orlofsdaga, lífeyrisréttindi o.fl. Öll þessi réttindi eru mikilvægur hluti kjaranna, réttindi sem metin hafa verið svo mikils að fyrir þau væri nokkru fórnandi í launum enda hafa viðsemjendur þess hvergi sparað að minna á öll þessi réttindi til þess að slá á beinar kaupkröfur.

[16:00]

Við fyrstu sýn gæti svo virst sem 8. gr. tryggði starfsfólki rétt til sömu kjara hjá nýju og breyttu fyrirtæki Pósts og síma og þeir njóta nú, þ.e. fastráðnir starfsmenn. Þó er þetta engan veginn skýrt. Ég vísa m.a. til texta í umfjöllun við 8. gr. frv. þar sem fjallað er um biðlaunaréttinn. Pósti og síma hf. er gert skylt að virða áunnin réttindi og taka við tilheyrandi skuldbindingum af ríkissjóði. Hins vegar eins og segir í textanum, með leyfi forseta:

,,Hins vegar er ákvæðinu ekki ætlað að veita starfsmönnum þessum aukin réttindi, þar á meðal biðlaunaréttindi, miðað við það sem þeir áður höfðu, þannig að þeir geti ekki sótt rétt til beggja, félagsins og ríkisins, yrði staða lögð niður eftir stofnun félagsins.``

Hvað þýðir þetta? Mér sýnist einfaldlega að þessi réttur sem starfsmenn ríkisstofnana hafa talið dýrmætan og allmiklu fórnandi fyrir í launum sé talsvert brothættur þegar til kastanna kemur. Þetta er kjarni málsins svo að maður grípi til alþekkts slagorðs og sýnir í hvílíkar ógöngur launakerfi hins opinbera er komið þegar allur þorri opinberra starfsmanna hefur árum saman hangið á lélegum launum og látið sér þau lynda í skiptum fyrir réttindi af ýmsu tagi. Við yfirfærslu af því tagi sem hér er verið að efna til er einfaldlega að mínu mati óhjákvæmilegt að setjast nú niður og meta þessi réttindi til fjár og bæta þau. Ég vil taka það aftur fram að ég er ekki mótfallin breytingum á rekstrarformi Pósts og síma út af fyrir sig og er raunar sammála því að hún sé nauðsynleg þótt ég gagnrýni lítilfjörlegan rökstuðning og sé ekki sannfærð um þá leið sem hér er valin. En menn verða að horfast í augu við þann tilkostnað sem hlýtur að leiða af breytingum af þessu tagi og menn verða að vinna að slíku í sátt við alla aðila en ekki afgreiða fólk eins og búpening sem hægt er að færa milli dilka eftir geðþótta. Það má vel vera að starfsfólki sé með þessu lagaákvæði tryggt að það geti flutt réttindi með sér. En hversu lengi skyldi það standa? E.t.v. væri réttast að gera a.m.k. tilraun til að meta núverandi réttindi starfsmanna Pósts og síma til fjár og bjóða þeim hlutabréf í nýju fyrirtæki í staðinn. Ætli það væri ekki eina ráðið til að tryggja réttindi þeirra. Réttindamál starfsmanna eru að mínu viti stærsta atriðið í þessu máli og þarfnast rækilegrar athugunar og samráðs.

Þá vil ég loks nefna eitt, herra forseti, sem ég skil ekki fremur en hv. síðasti ræðumaður. Hér er lagt til að gera Póst og síma að hlutafélagi í einu lagi. Innan stofnunarinnar eru margir rekstrarþættir sem skiptast í ýmsar deildir og þær verða sjálfsagt smám saman gerðar að sjálfstæðum fyrirtækjum. En það sem mest stingur í augu er að ekki skuli gengið til þess verks að skilja í sundur póst- og símaþjónustuna eins og víðast hvar er gert. Ég skildi ekki alveg vandlætingu hæstv. ráðherra áðan yfir orðum síðasta ræðumanns, hv. 18. þm. Reykv., um að það kæmi til greina að skipta upp Pósti og síma því að það er svo sannarlega gert ráð fyrir því í frv. og greinargerð eða athugasemdum við einstakar greinar. Þar segir og ég vitna beint í athugasemd við 2. gr. þar sem segir í 2. mgr.:

,,Niðurlag 2. mgr. gerir ráð fyrir þeim möguleika að til þess geti komið að talið verði heppilegt og hagkvæmt að félaginu verði skipt milli tveggja félaga þar sem annað annaðist póstþjónustu en hitt fjarskiptaþjónustu.``

Þarna stendur það. Í greinargerð um aðskilnað póst- og símaþjónustu stendur, með leyfi forseta:

,,Talsvert hefur verið rætt hvort aðskilja eigi póst- og símaþjónustuna hér á landi eins og víðast hefur verið gert í öðrum löndum. Í því sambandi má benda á eftirfarandi atriði:

Æskilegt er að stíga einvörðungu það skref að breyta réttarstöðu Póst- og símamálastofnunar í hlutafélagsform og láta það hafa forgang. Að því loknu verði skoðað hvort heppilegt sé að skipta rekstrinum í tvö sjálfstæð hlutafélög. Með því gæfist m.a. tími til að gera úttekt á rekstri og efnahag hvorrar þjónustugreinar um sig og efla þær rekstrarlega ef á þyrfti að halda áður en til slíks aðskilnaðar kæmi.``

Ekki er þetta nú alveg morgunljóst allt saman. En ég spyr bara: Hvaða úttekt eru menn að tala um? Flestar upplýsingar sem á þarf að halda hljóta að finnast í ársreikningum og það vita allir að tekjur símaþjónustunnar halda póstþjónustunni uppi. Ætli það láti ekki nærri að um tveir þriðju hlutar tekna Pósts og síma komi frá símaþjónustunni en einn þriðji hluti þeirra frá póstþjónustunni. Hins vegar er álíka margt starfsfólk í hvorum geira. Það er held ég deginum ljósara að það verður að rjúfa sambandið þarna á milli.

Ég vil að lokum minna á að við erum að tala um örlög einnar bestu mjókurkýr ríkisins ef frá er talið kannski ÁTVR. Póstur og sími skilaði nær milljarði held ég til ríkisins á síðasta ári og á að gera slíkt hið sama á þessu ári eða um 860 millj. kr. ef ég man rétt. Mér finnst ekki koma skýrt fram hvernig þessu verður háttað ef frv. verður að lögum. Það getur varla talist til búhygginda að slátra einni bestu mjólkurkúnni eða öllu heldur gefa nytina úr henni. Telur hæstv. ráðherra tryggt að ríkissjóður hafi ekki minni tekjur af rekstri Pósts og síma eftir en áður og hvernig á að tryggja það?

Ég vil að lokum endurtaka að mig undrar að við skulum ekki fá skýrara og betur frágengið þingmál í hendurnar eftir þennan undirbúningstíma. Ég tel nauðsynlegt að gengið væri rækilega frá öllum þáttum varðandi hlut starfsfólks pósts og síma áður en gengið er til þessara breytinga.