Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 16:12:03 (3301)

1996-02-27 16:12:03# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:12]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég skildi hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, 12. þm. Reykn., svo að hann væri sammála því að nauðsynlegt væri að breyta réttarformi Pósts og síma eða a.m.k. ekki mótfallinn því. Á hinn bóginn skildist mér á hv. þm. að hann gæti ekki hugsað sér að fara þá leið sem hér er farin. Ekki var samt hægt að skilja hvaða leið hv. þm. vildi fara öðruvísi en svo að ekki kæmi til greina að velja hlutafélagsformið. Þó kom ekki í ljós hvers vegna hv. þm. vildi ekki hlutafélagsformið og virtist ekki skilja hvernig á því stendur að það er einmitt valið. Það er svo í sambandi við ný samkeppnislög og í sambandi við þau ströngu skilyrði sem sett eru í þeim efnum á hinu Evrópska efnahagssvæði að ætlast er til þess að starfsemi eins og póstþjónusta og fjarskiptaþjónusta verði í framtíðinni rekin án ríkisábyrgðar, án þess að á bak við þá starfsemi sé ríkisábyrgð. Það er ætlast til þess í sambandi við póstgíróið að slík starfsemi sé rekin án þess að á bak við hana sé ríkisábyrgð. Þegar við erum að tala um að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag erum við að velja rekstrarform sem er í því fólgið að ábyrgðin felst í eigin fé eigandans, þ.e. sem sagt eignum Pósts og síma hf. sem standa á bak við þær skuldbindingar sem fyrirtækið hefur tekið á sig en ekki öðrum eignum ríkissjóðs. Þetta er munurinn á því að velja hlutafélagsform og að láta sitja í því fari sem nú er.

Ef verið er að velta því fyrir sér að reyna að tryggja atvinnuöryggi fólksins sem vinnur hjá Póst- og símamálastofnun er auðvitað fyrsta skrefið að reyna að tryggja að stofnunin hafi áfram grundvöll til að starfa á þeim sviðum sem hún starfar nú. En miðað við hinar nýju reglur og hinar ströngu samkeppnisreglur sem Alþingi hefur sjálft sett og ganga að sumu leyti lengra eru ríkisrekstri settar mjög þröngar skorður og þrengri skorður frá ári til árs.