Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 16:58:58 (3310)

1996-02-27 16:58:58# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[16:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Það er alveg rétt, herra forseti, að því miður hefur Samkeppnisstofnun lent í þeim ógöngum að mínu mati að eyða allt of miklu af kröftum sínum í smáatriði sem lúta að samskiptum opinberra aðila eða þeirra sem hafa einkarétt á einhverri starfsemi og markaðarins að öðru leyti en látið ýmislegt annað mæta afgangi. Ég tel að eltingarleikur við smámuni eins og t.d. notendabúnaðarsölu Pósts og síma eða auglýsingar í símaskránni séu af því tagi. En allt í lagi með það. Þar er vissulega jaðarsvæði, grátt svæði sem út af fyrir sig er alveg hægt að viðurkenna að þurfi að taka á. Það er allt leysanlegt. Samkeppnislögin kveða einmitt á um það til hvaða aðgerða þurfi þar að grípa þannig að tryggt sé að ekki sé verið að færa hagnað úr einkaleyfabundinni starfsemi yfir á samkeppnissvið. Það er eðlileg og réttmæt krafa að öllum slíkum skuldbindingum sé fullnægt. Það verður Póstur og sími að sjálfsögðu að gera. Það er hins vegar ekkert sem segir að fyrirtækið geti ekki að öðru leyti starfað óbreytt áfram. Því mótmæli ég. Ég kannast ekki við að það liggi fyrir neinn slíkur salómonsdómur. Enda mundi hann sjálfkrafa þýða, herra forseti, að engin ríkisfyrirtæki eða ríkisstofnanir gætu starfað. Það væri þannig ef menn ætluðu að gerast svona heilagir. En það er ekki svo.

[17:00]

Varðandi það hvers konar fyrirtæki ég gæti hugsað mér að Póstur og sími yrði ef þyrfti að breyta honum, þá á ég ósköp einföld svör við því, herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég helst að hann fái að vera í friði. Það er mín lína. Ég hefði reynt að verja stofnunina í lengstu lög óbreytta, sem ríkisstofnun. Í öðru lagi reyndi ég að búa til sjálfstætt fyrirtæki sem ekki væri hlutafélag, sem væri varið fyrir einkavinavinavæðingarkórnum með gerð sinni þannig að það væri sæmilega tryggt að fyrirtækið fengi að vera í friði og gæti starfað. Þar gæti einhvers konar sjálfseignarstofnunarform eða sameignarform, sjálfstætt fyrirtæki utan fjárlaganna án beinnar ábyrgðar ríkisins, vel komið til greina. Hæstv. ráðherra hlýtur að skilja að hér hefur verið talað mannamál í dag um það að við erum tilbúin til að skoða hvort hægt sé að ná pólitísku samkomulagi. Ef hæstv. ráðherra vill það ekki þá vekur það auðvitað umsvifalaust upp grunsemdir um það að hann tali hér þvert um hug sinn, að eitthvað annað sé á döfinni en látið er í veðri vaka.