Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 17:27:47 (3317)

1996-02-27 17:27:47# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[17:27]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að gera þá játningu að hv. þm. Tómas Ingi Olrich tók mig í bólinu þarna. Það er oft svo að menn hugsa ekki hugsun sína algjörlega til enda. Ef hv. þm. man hvernig ég orðaði þetta þá var vísa mín hálfkveðin. Þegar setningunni lauk þá tók ég fram að e.t.v. væri heldur betra að fá þarna fulltrúa neytenda. Ég er í grundvallaratriðum nokkuð sammála því að við eigum ekki í of ríkum mæli að beita því að kjósa úr okkar hópi í stjórnir slíkra stofnana og er algerlega sammála því sem hann sagði um ríkisbankana. Ef ég væri ekki vaxinn upp úr því þá mundi ég nú kannski rifja það upp fyrir hv. þm. að á síðasta kjörtímabili var þingmaður úr flokki hans sem gerði það að skilyrði fyrir framgangi ákveðins frv. um Áburðarverksmiðjuna að þar fengju ýmsir kollegar okkar að sitja. En eins og ég sagði er ég vaxinn upp úr því og ætla ekki að minna hv. þm. á það.