Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 18:02:10 (3327)

1996-02-27 18:02:10# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:02]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Í rauninni er skilningur hv. þm. réttur. Í ræðu minni fyrr í dag sagði ég að það væru tvær leiðir færar að því er virtist fyrir ríkisstjórnina: Annars vegar að greiða biðlaunin öllum starfsmönnum ríkisfyrirtækja sem er breytt yfir í hlutafélag. Hins vegar að fara þá leið, sem mér sýnist ríkisstjórnin vera að feta sig núna. Hún er sú að breyta lögunum frá 1954, þ.e. gera atlögu að kjörum og réttindum opinberra starfsmanna. Þrátt fyrir góðan vilja og góðar yfirlýsingar hv. þm., kýs ég að lesa þetta frv. um Póst og síma með hliðsjón af þeim þremur ókomnu frumvörpum sem ríkisstjórnin hefur boðað. Ég kýs líka að lesa það í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á bönkunum. Það er alveg ljóst að það nákvæmlega sama mun gilda um bankastarfsmenn og við erum að ræða um í dag. Ég tel að nýleg harka forsrh., sem hafði sýnt vaxandi mýkt á síðari missirum og mánuðum, sýni það eitt að ríkisstjórnin ætlar sér fyrst að ná fram þessum þremur frumvörpum um breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Síðan verður Póstur og sími keyrður í gegn og síðan verða bankafrumvörpin keyrð í gegn. Þá verður þetta löglegt, en það verður siðlaust vegna þess að þá verður búið að skerða réttindi opinberra starfsmanna sem nemur milljörðum króna.

En millileiðin, hv. þm., er fær. Það er hægt að fara þá leið að semja við opinbera starfsmenn, semja um einhvers konar aðferð sem gerir kleift að fara þessa leið. En það er nákvæmlega það sem ríkisstjórnin hefur ekki gert. Hún á kost á tveimur leiðum. Hún á kost á því að ræða við menn og semja og hún á kost á ófriði og hún hefur valið leið ófriðarins. Má kannski gera því skóna að hér sé um að ræða einhvers konar aðdraganda að kjarasamningum sem síðar fara fram á þessu ári? Er það ekki alveg ljóst að það ber að líta á þetta allt í einni heild. Þetta er aðför. Ég lít svo á vegna þess að núna, þegar er efnahagsleg uppsveifla, er fært að leysa þetta vandamál í góðum friði með samningum.