Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 18:06:17 (3329)

1996-02-27 18:06:17# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Með þessu frv. er ekki bara verið að gera grundvallarbreytingu á rekstri Pósts og síma, heldur er ýmsum spurningum hvað varðar starfsfólk, réttindi þess og kjör og áhrif þessara breytinga á þjónustu Pósts og síma við landsmenn ósvarað. Mér finnst hæstv. samgrh. hafa svarað mjög óskýrt þeim spurningum sem til hans hefur verið beint í þessari umræðu, ekki síst þeim sem lúta að kjörum starfsmanna Pósts og síma. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að hæstv. samgrh. sjái sér fært að vera hér viðstaddur.

(Forseti (RA): Hann er þarna innst.)

Gott og vel. Því er haldið fram í frv. af hálfu hæstv. samgrh. að hér sé ekki verið að einkavæða Póst og síma. Hvað sem því líður er ljóst að hugur hæstv. samgrh. virðist standa til þess, en í frumvarpsdrögunum sem lágu fyrir 1993 var einmitt gert ráð fyrir sölu á hlutafé í Pósti og síma. Eins eru ýmis atriði í þessu frv. sem virðast eiga að ryðja brautina fyrir einkavæðingu og má ætla að hér sé á ferðinni stórt skref í þá átt. Skoði maður frv. sem hæstv. ráðherra var með 1993 eru ákvæðin ósköp svipuð að því er varðar heimild til sölu á hlutabréfum, en í fyrri frumvarpsdrögum ráðherra stóð: ,,Við stofnun og til ársloka 1997 skulu öll hlutabréf í félaginu vera eign ríkissjóðs. Eftir þann tíma tekur Alþingi ákvörðun um hvort og í hve miklum mæli hlutabréfin skulu seld.`` Mér sýnist þetta vera ósköp sambærilegt ákvæði.

Það er ljóst hvert hugur ráðherrans stefndi á þeim tíma og vil ég þar vitna í frétt sem kom í DV á sínum tíma, 12. ágúst 1992. Ég vitna hér orðrétt til fyrirsagnar, með leyfi forseta: ,,Útlendingar geta keypt Póst og síma, segir Halldór Blöndal samgrh.`` Í greininni segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Það er ekki loku fyrir það skotið heldur að erlendir aðilar geti keypt hlut í Pósti og síma eða íslensku símafyrirtæki. Ég tel hins vegar skynsamlegt í fyrirsjáanlegri framtíð að íslenska ríkið eigi í það minnsta helminginn í slíku fyrirtæki.``

Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, hvert hugur ráðherrans stefnir í þessu máli. Þótt hér sé verið að reyna að koma málinu í gegn undir þeim formerkjum að það eigi ekki að selja hlutabréfin, er alveg ljóst að það er verið að stíga mjög afdrifaríkt skref til einkavæðingar á Pósti og síma. Ég hygg að við séum flest sammála um að svo þurfi að búa að rekstrarumhverfi Pósts og síma að það sé í stakk búið til að mæta örri tækniþróun, samkeppni í gagnaflutningi og nánast byltingu í fjarskiptatækni o.s.frv. Við þurfum að laga okkur að samkeppni á þessu sviði. Spurningin er þá um leiðir. Þarf að breyta rekstrarformi Pósts og síma til að standast samkeppni og þá hvernig? Ég tel að ekki þurfi mikið að deila um markmið, heldur fremur leiðir til að ná því markmiði. Og þar vakna margar spurningar, herra forseti.

Þótt flestar þjóðir sem við berum okkur saman við hafi á síðari árum verið að breyta rekstri símaþjónustunnar, þó misjafnt sé með póstþjónustuna, virðist það ríkisrekna form sem við höfum búið við ekki hafa hamlað okkur í að laga okkur að þessari öru þróun á sviði fjarskipta og upplýsingamiðlunar. Það kemur greinilega fram og var vitnað til þess fyrr í dag í greinargerð með frv. að við höfum lagað okkur prýðilega að þessari þróun.

Við sjáum það líka þegar skoðuð er tafla sem birtist í Símablaðinu árið 1993 yfir símagjöld fyrirtækja miðað við sömu notkun í öllum OECD-löndum árið 1991. Þar er Ísland langlægst að því er varðar símagjöldin.

Ég velti því fyrir mér, og það hafa fleiri gert hér í dag, hvort það sé endilega sjálfgefið að knýja þurfi á um þessa breytingu á rekstri Pósts og síma, þ.e. að breyta rekstrarforminu í hlutafélag. Ég tel að það þurfi að athuga það sérstaklega hvort ekki sé hægt að ná markmiðunum með því að fara þá leið sem farin var í Frakklandi og í Lúxemborg á sínum tíma, þ.e. að gera Póst og síma að sjálfstæðu fyrirtæki í eigu ríkisins undir sérskipaðri stjórn sem hefði víðtækt ákvörðunarvald til að framkvæma nauðsynlegar breytingar til að hægt væri með eðlilegum hætti að aðlagast örri þróun í fjarskiptatækni. Það felur í sér að engin hlutbréf eru gefin út en félagið starfar á líkan hátt og um hlutafélag væri að ræða.

Ég vil spyrja hæstv. samgrh. aftur um þessa leið vegna þess að hæstv. ráðherra var þeirrar skoðunar fyrir kosningar 1995, fyrir tæpu ári, að það væri ekki endilega nauðsynlegt að fara þá leið að breyta rekstrarformi Pósts og síma í hlutafélag, heldur væri hægt að fara aðra leið. Ég ætla að vitna til þess, með leyfi forseta, sem fram kom á fundi sem Starfsmannafélag Pósts og síma hélt um þetta mál rétt fyrir kosningar, en þá sagði hæstv. samgrh. orðrétt:

,,Halldór Blöndal samgrh. hafði fyrstur framsögu. Hann sagði að það væri ekki aðalatriðið að breyta stofnuninni í hlutafélag heldur kemur það ekki síður til greina að stofnað verði sjálfstætt fyrirtæki í eigu ríkisins sem lúti almennt lögmálum markaðarins, greiði skatta og skyldur og þar fram eftir götunum.``

Ég spyr: Hvað hefur gerst, hæstv. ráðherra? Hæstv. ráðherra hafði þá afstöðu rétt fyrir kosningar, fyrir nokkrum mánuðum, að ekki væri endilega nauðsynlegt að breyta stofnuninni í hlutafélag, heldur kæmi ekki síður til greina að stofna sjálfstætt fyrirtæki í eigu ríkisins. Nokkrir þingmenn hafa talað fyrir því hér í dag að það bæri að skoða áður en farið verður út í þessa breytingu. Ég tek t.d. undir það sem fram kom hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Ég er ekki sannfærð um þau rök sem hæstv. ráðherra færir fram að það sé endilega nauðsynlegt að fara út í hlutafélagaformið. Og ég spyr um afstöðu ráðherrans: Hvað hefur breyst frá því að ráðherrann sagði þetta fyrir örfáum mánuðum?

Það er alveg ljóst að réttarstaða fólks í þessu frv. er ákaflega óljós. Ég verð að segja, herra forseti, að ég var furðu lostinn undir framsöguræðu hæstv. ráðherra. Þar kom orðrétt fram hjá hæstv. ráðherra að það þyrfti að hefja viðræður um hagsmunamál starfsmanna. Á fyrst að fara að hefja viðræður um hagsmunamál starfsfólksins eftir að þetta mál er komið inn á þingið? Það er með ólíkindum að ráðherra skuli hafa slík samskipti við starfsfólkið sem á svo mikið í húfi við þessar breytingar. Maður veltir fyrir sér hvort það sé tilviljun að gert er ráð fyrir, bæði í frv. varðandi réttindi starfsfólks og um breytingu á lögum um grunnskóla, að starfsfólk haldi óbreyttum kjörum og réttindum. En í öðrum frumvörpum er um að ræða allt önnur kjör, eins og t.d. varðandi lífeyrisréttindi. Bæði þetta frv. og breytinguna á grunnskólalögunum virðist eiga að nýta til að gerbreyta og skerða lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Mér finnst mjög sérkennilegt að hæstv. ríkisstjórn, þótt hún hafi vissulega mikinn þingstyrk, skuli bjóða þinginu upp á þessa vitleysu. Opinberum starfsmönnum er boðið að halda sömu réttindum og kjörum í einu frv. og síðan kemur annað frv. inn í þingið sem á að taka öll þessi réttindi aftur. Það er verið að nýta þessar breytingar eins og í sambandi við grunnskólalögin og þessa formbreytingu hér til þess að taka réttindin holt og bolt, réttindin sem opinberir starfsmenn hafa haft og sem viðurkennt er oft og tíðum að hafi haldið niðri launum hjá starfsfólkinu og þetta á að gera án þess að fólkinu sé bætt þetta í launum.

[18:15]

Ég ætla að leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. ráðherra varðandi stöðu starfsfólksins og ég mun ekki una því að hann svari því með útúrsnúningi í andsvari á þeim tveimur mínútum. Hann hefur ekki svarað ýmsum spurningum sem komu fram, t.d. hjá hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur varðandi stöðu starfsfólksins. Ég bið ráðherrann að svara þessum spurningum:

1. Hverjir verða samningsaðilar starfsfólks eftir breytingu yfir í hlutafélag? Maður getur líka spurt: Hvaða áhrif hefur það ef gildistakan á að vera 1. okt. 1996 og samningar starfsfólks Pósts og síma eru lausir um næstkomandi áramót? Verða samningar þessa starfsfólks áfram lausir um næstkomandi áramót miðað við gildistökuna 1. október?

Í 8. gr. frv. er kveðið á um að starfsfólk skuli halda þeim réttindum sem það hafði áunnið sér hjá stofnuninni en í skýringum með 8. gr. kemur fram að með ákvæðinu eru viðurkennd þau réttindi sem starfsmenn höfðu áunnið sér hjá stofnuninni fyrir stofnun félagsins. En hvað gerist síðan? Spurningin lýtur að því hvað gerist eftir stofnun félagsins. Verða þau laun og réttindi sem fólk hefur áunnið sér fryst og starfsfólki síðan boðin önnur kjör af hálfu þessa félags, kannski breytt eða skert réttindi frá því sem starfsfólkið hafði áður? Hvernig verður fyrirkomulagið þá? Á að gera persónubundna samninga við hvern og einn starfsmann í þessu nýja hlutafélagi? Eru ekki allar leiðir opnar fyrir nýja félagið að segja fólki upp og ráða það þá á öðrum kjörum eftir breytinguna? Það er athyglisvert sem kemur fram í 8. gr. frv. að kveðið er á um að fólk fái ekki lakari laun en það naut áður. Þó það nú væri. Starfsfólk Pósts og síma er á lægstu launum sem boðin eru í þjóðfélaginu. Þakka skyldi hæstv. samgrh. þó hann ætli ekki að standa að því að starfsfólkið fái lakari laun en það nýtur núna.

Hvaða lög eiga að gilda um starfsfólk Pósts og síma? Eiga að gilda lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eða lög sem gilda á almenna vinnumarkaðnum? Starfsfólkinu er þetta ekki ljóst. Ég spyr hæstv. ráðherra að því og ætlast til þess að hann svari því hvaða lög hann telur að eigi að gilda um starfsfólkið.

Ég spyr um verkfallsrétt póst- og símamanna. Hér eru 300--400 manns sem hafa engan verkfallsrétt. Þó var tekið á þessu í fyrri frumvarpsdrögum ráðherrans á árinu 1993. Hvað mun breytast? Mun eitthvað breytast hvað varðar verkfallsréttinn?

Ég ítreka spurningu Ástu R. Jóhannesdóttur: Hvað verður um núverandi æðstu stöður hjá Pósti og síma við breytinguna? Halda yfirmennirnir stöðum sínum eða verða þær auglýstar lausar til umsóknar? Það er einu sinni svo að þar sem farið hefur verið út í þessa formbreytingu sem hefur svo leitt til einkavæðingar eru það yfirmennirnir sem hafa grætt á öllu saman. Laun þeirra hafa margfaldast en laun starfsfólksins hafa yfirleitt staðið í stað. Mér finnst mjög sérkennilegt að starfsmenn Pósts og síma hafi ekki átt fulltrúa í nefndinni sem samdi frv. og nánast ekkert samráð hafi verið haft við starfsmannafélög starfsfólksins við samningu frv.

Ég ætla aðeins að víkja að öðrum ákvæðum frv. Ef ríkisstjórnin er staðráðin í að knýja þessa breytingu í gegn, sem ég er alls ekki sannfærð um að sé nauðsynleg, og ég tek undir með hæstv. ráðherra sem sagði á fundi póst- og símamanna fyrir kosningar að alls ekki sé nauðsynlegt að fara þessa leið. Það er oft svo að stjórnmálamenn tala tungum tveim, hvort um er að ræða fyrir eða eftir kosningar. Ef ríkisstjórnin er staðráðin í að knýja þetta í gegn er spurning hvort hæstv. ráðherra gæti ekki hugsað sér að skipta upp annars vegar póstinum og hins vegar símaþjónustunni. Ýmis rök mæla með því að það verði gert og raunverulega knýr ekkert á um breytingu á póstþjónustunni en eins og við vitum er fólgin í henni mikil samfélagsleg þjónusta. Maður spyr hvaða áhrif þessi breyting hefði fyrir þjónustuna við landsbyggðina.

Í 2. gr. frv. er veitt mjög víðtæk heimild til stofnunar dótturfyrirtækja og stefnt að því að tryggja fjárhagslegan aðskilnað þess hluta fyrirtækisins sem nýtur einkaleyfis eða verndar og hins vegar þess hluta sem er í samkeppni við aðra. Ég sé ekki að það þurfi að vefjast fyrir mönnum að skipta upp rekstri síma- og póstþjónustunnar og breyta ekki póstþjónustunni í hlutafélag. Hæstv. ráðherra talar um að þetta kalli á mjög mikla vinnu. Af hverju lét hæstv. ráðherra þá vinnu ekki fara fram áður en hann kom með frv. inn í þingið?

Í 1. gr. frv. er kveðið á um að við stofnun félagsins skuli allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess óheimil án samþykkis Alþingis. Ákvæðið virðist skýrt varðandi hlutafé sem verður til við stofnun félagsins en nú spyr ég hvernig með verður farið ef talin verður þörf fyrir að auka hlutafé síðar meir. Kemur þá eingöngu til kasta eiganda ríkissjóðs eða telur ráðherrann sig með ákvæðum þessa frv., ef samþykkt verða, eða með vísun í ákvæði hlutafjárlaga geta boðið út nýtt hlutafé? Mér sýnist ákvæðið vera skýrt en ekki er annað hægt en að ráðherrann svari því afdráttarlaust hvort hann telji að með þessum lögum, ef að lögum verður, eða með vísan í hlutafjárlögin geti hann aukið hlutaféð.

Virðulegi forseti. Ég nefni líka 5. gr. frv. Mér finnst ekki boðlegt að Alþingi sé boðið upp á að endurmat eigi að fara fram á eignum stofnunarinnar og skuldbindingum á viðskiptavild eftir að frv. verður að lögum. Hvernig stóð á því að hæstv. ráðherra lét þetta endurmat ekki fara fram meðan málið var í skoðun hjá hæstv. samgrh. og ríkisstjórninni þannig að Alþingi hefði þá hugmynd um hvert þetta endurmat væri og hvert hlutaféð yrði? Mér finnst ekki boðlegt fyrir Alþingi að ætla að gera þetta eftir að frv. er orðið að lögum.

Mikið hefur verið rætt um að samgrh. eigi einn að skipa sjö manna stjórn Pósts og síma sem ég tel alveg út í hött. Ég spyr ráðherrann og óska eftir svari við því hvort hann telji a.m.k. ekki eðlilegt að starfsmenn fái einn fulltrúa í stjórn félagsins. Er ekki lágmark að starfsfólki sé boðið upp á það ef af þessari breytingu verður að fá a.m.k. einn fulltrúa í stjórn félagsins?

Í fyrra frv. var talað um fimm manna stjórn en nú er allt í einu búið að breyta því í þessu frv. yfir í sjö manna stjórn. Þarf hæstv. ráðherra að koma fyrir fleiri gæðingum inn í stjórnina eða hver er ástæðan fyrir þessari breytingu? Hún er a.m.k. ekki skýrð hér. Alla vega virðist svo að ráðherrann hafi ekki verið að búa til pláss fyrir fulltrúa starfsmanna í þessari stjórn.

Ég spyr hæstv. ráðherra um gjaldskrárnar. Telur hann að það verði um einhverjar gjaldskrárhækkanir að ræða við þessar breytingar? Hvað átti hæstv. ráðherra við í framsöguræðu sinni þegar hann sagði fyrr í dag að frekari jöfnun á símkostnaði væri fram undan? Hæstv. ráðherra skýrði það ekkert nánar og ég held að ástæða sé til að ráðherra skýri það.

Hæstv. samgrh. og hæstv. fjmrh. hljóta að hafa skoðað það saman hvað megi meta að hlutafélagið, ef af verður, greiði í skatta eftir þessa formbreytingu. Á síðustu árum hafa verið greiddar verulegar fjárhæðir frá Pósti og síma í ríkissjóð, 860 millj. ef ég man rétt, og hæstv. ráðherra og ríkisstjórn hljóta að hafa reynt að leggja eitthvert mat á það hvað megi ætla að þetta nýja hlutafélag greiði í skatta og skyldur til ríkissjóðs.

Ég sé að tími minn er búinn en ég vil líka spyrja ráðherrann um eitt mikilvægt atriði. Hvað verður um niðurfellingu á fastagjaldi síma, sem tekjulitlir elli- og örorkulífeyrisþegar hafa, þegar þessu er breytt í hlutafélag? Verður þeim hópi tryggð áfram þessi kjör í einhverju formi, t.d. með hærri bótum frá almannatryggingum?

Virðulegi forseti. Ég vil í lokin segja þetta: Verði þessi ríkisstjórn áfram við völd tel ég einsýnt að hér sé verið að stíga afdrifaríkt skref til einkavæðingar á Pósti og síma á Íslandi og við því vil ég vara sterklega. Það skulu vera lokaorð mín að ég mun ekki láta mér nægja í stuttu andsvari einhvern útúrsnúning frá hæstv. ráðherra. Ég mun þá taka aftur til máls á eftir og nýta mér þann tíma sem ég hef til þess að knýja á um svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fyrir ráðherrann.