Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 18:55:53 (3336)

1996-02-27 18:55:53# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[18:55]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ef ekki taka fleiri til máls þakka ég fyrir málefnalegan málflutning og hversu ítarlega hefur verið farið í einstök atriði frv. Það kemur mér auðvitað ekki á óvart að hv. 17. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, skuli lýsa yfir efasemdum yfir því að rétt sé að breyta Póst- og símamálastofnun í fyrirtæki sem vinni á markaðsgrundvelli. Það hefur komið fram áður í máli hans hverjar stjórnmálaskoðanir hans eru. Þær eru grunnmúraðar eins og raunar stjórnmálaskoðanir mínar en við erum hins vegar ekki á sama væng stjórnmálanna. Ég trúi því ekki eins og hann að til langs tíma sé það farsælt í erfiðri samkeppni að fyrirtæki eða stofnun --- það er erfitt að kalla Póstur og sími fyrirtæki og stofnun í sömu andránni --- við skulum segja að Póstur og sími sé rekinn sem opinber stofnun og trúi því að Póstur og sími muni halda velli til frambúðar á þeim grundvelli.

Ég deili ekki þeirri skoðun með honum. Ég er gagnstæðrar skoðunar og það er ekki rétt hjá hv. þm. þegar hann segir að öll starfsmannafélög Pósts og síma séu andstæð því að (ÖJ: Í Danmörku.) já, í Danmörku já, þá misheyrði ég. Ég þekki það auðvitað ekki. En hér á landi eru skiptar skoðanir meðal starfsmanna Pósts og síma á því hvort skynsamlegt sé að breyta fyrirtækinu í hlutafélag eins og hér er gert ráð fyrir eða halda áfram að reka það sem opinbera stofnun.

Ég hlýt að segja það út af því sem hv. þm. sagði áðan um tvö frumvörp sem kynnt hafa verið ríkisstjórninni og hann þekkir í einhverri gerð. Vinnsla frumvarpanna hefur haldið áfram og mér er ekki alveg kunnugt um hvaða gerð hv. þm. hefur í höndum. Þar erum við annars vegar að tala um frv. um breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og hins vegar erum við að tala um frv. um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna.

Um síðara frv., um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna, vil ég segja að það er vitaskuld ógerningur að halda þeim reglum og þeim sjóði í því horfi sem verið hefur. Ég hygg að það sé rétt hjá mér að hallinn á lífeyrissjóðnum sé um 3,5 milljarðar á ári og það er alveg ljóst að það verður að breyta reglum og skilmálum sjóðsins og þá kemur auðvitað til greina að auka greiðslur í sjóðinn. Hins vegar kemur líka til greina að halda greiðslum óbreyttum en breyta þá þeim réttindum sem viðkomandi fá. Ég held að við verðum öll að gera okkur grein fyrir því að opinberir starfsmenn eru orðnir það margir að aðrir skattgreiðendur una því ekki til lengdar að þeir þurfi að standa undir hluta af lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna með sköttum sínum og skyldum. Ég hef haft áhyggjur af þessu mjög lengi, líka á þeim tíma þegar ég var kennari og var í Kennarasamtökunum og tel raunar að tómlæti of margra forustumanna opinberra starfsmanna í þessum efnum hafi verið of mikið. Ég held þess vegna að það sé ekki hægt, hvorki fyrir mig né hv. þm., sem er formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, að horfa þannig til framtíðarinnar að lögin um Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna og uppbygging þess sjóðs, kröfurnar sem á hann eru lagðar og inngreiðslurnar séu eitthvað sem við getum hugsað okkur að standi óumbreytanlegt um aldur og ævi. Ég held að við getum ekki tekið málið upp á þeim grundvelli.

[19:00]

Á hinn bóginn liggur fyrir samkvæmt þeim hugmyndum sem eru um þetta frv. hér að þær skuldbindingar sem hvíla á starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar verði látnar fylgja félaginu og koma fram í efnahagsreikningi þess.

Um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna vil ég á þessari stundu aðeins segja það, sem ég sagði raunar í frumræðu minni, að sú var grunnhugsunin í sambandi við biðlaunarétt opinberra starfsmanna að til hans ætti að grípa ef starf yrði lagt niður til þess að viðkomandi starfsmaður hefði nokkurt svigrúm til að leita sér að nýju starfi. Ég hygg að við hljótum að geta verið sammála um það hér í þessum sal að rauði þráðurinn í þeirri löggjöf sem við setjum um vinnandi menn í þjóðfélaginu hljóti að vera sá að menn sitji nokkurn veginn við sama borð að þessu leyti. Það hefur raunar líka komið fram að þegar stjórnmálamenn hafa skipt um starf þá hefur ekki verið talið eðlilegt að biðlaunarétturinn fylgdi þeim eftir að þeir hafa þegið laun annars staðar. Hafa verið skrifaðar um þau efni margar greinar og ég hygg að ótal ræður hafi einnig verið fluttar um þau. Það sem við gerum hér í þessu frv. er að við viðurkennum að biðlaunarétturinn sé fyrir hendi. Við gerum ráð fyrir því að starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar sé gefinn kostur á sambærilegu starfi í Pósti og síma hf., í samræmi við lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Ef það er skoðun forustumanna Bandalags ríkis og bæja og þeirra starfsmannafélaga sem í hlut eiga að þetta eigi ekki að vegast á, ef þeir eru þeirrar skoðunar að það sé einskisvirði fyrir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar að lögin geti að þessu leyti átt við þegar ráðið er til nýrra starfa í Pósti og síma hf. og vilja þess vegna hafa það laust hvort um endurráðningu sé að ræða, jafnvel hjá gömlum starfsmönnum, þá er það auðvitað afstaða og þá hljóta forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja að túlka hana með þeim hætti. Auðvitað geta forustumenn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja ekki sagt hvort tveggja í senn: Við ætlumst til þess að ákvæðin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eigi við þegar okkur hentar en ekki þegar okkur hentar það ekki. Í þessu frv. er gengið út frá því að ekki verði röskun á högum þess fólks sem vinnur í Póst- og símamálastofnun. Í samræmi við það viljum við að biðlaunarétturinn haldi. Það má svo aftur segja að ég hlýt, bæði sem stjórnmálamaður og ráðherra, að gera það upp við mig með hvaða hætti ég vildi koma að málinu. Ég vildi að öll réttindin fylgdu með, en menn geta ekki fengið tvöföld réttindi á vissum sviðum. Ef starfsmannafélögin hafna ráðningunni þá má aftur velta vöngum yfir því hvort krafan um biðlaunaréttinn standi.

Hitt er svo annað mál að í því frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem fyrir liggur er valin önnur leið en í frv. um Póst og síma. Þar er því slegið föstu að biðlaunarétturinn skuli við það bundinn að viðkomandi fái ekki sambærilegt starf þótt hjá hlutafélagi sé og er þá átt við launakröfur og annað þvílíkt. Biðlaunarétturinn er þar með takmarkaður sem er almenn aðgerð og ég held að ekki séu neinar deilur uppi um að hún standist.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir varpaði hér fram ýmsum spurningum sem að mestu leyti skýrast af því að við erum hér að tala um að breyta ríkisstofnun í hlutafélag. Auðvitað hefur það ákveðna breytingu í för með sér á réttindum starfsfólks til frambúar þar sem um það gilda mismunandi lög. Eins og ég sagði áðan er nú í deiglunni að breyta lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það hefur verið talað um, eins og m.a. kom fram hjá þessum hv. þm. og ýmsum öðrum þingmönnum, að opinberir starfsmenn hefðu einhver ógnarréttindi vegna biðlaunanna og vegna lífeyrisréttar síns, það réttlætti að þeir séu mun lægra launaðir en annað launafólk og þeir hafi sætt sig við það af þeim sökum. Þegar við erum að tala um lægst launaða fólkið hjá Pósti og síma þá geta menn auðvitað velt vöngum yfir því, miðað við þau lífeyrisréttindi sem það að lokum fær og hefur fengið, hvort þetta fólk hefði ekki fremur kosið að betur hefði verið við það gert í mánaðarlegum launum og kjörum. Við getum því ekki sett eitthvert jafnaðarmerki á milli þessa og launakjaranna. Ég held að það sé t.d. alveg útilokað að velta því fyrir sér að það sé eitthvert jafnaðarmerki á milli biðlaunaréttarins og launakjara. Á meðan ég starfaði meðal opinberra starfsmanna minnist ég þess ekki að þeir hafi almennt talið biðlaunaréttinn mikils virði. Ég held að það sé ekki rétt vegna eðlis hans og uppbyggingar. Enda munum við, fólk á mínum aldri, ekki eftir því fyrr en á allra síðustu árum að erfitt hafi verið á að leita sér að nýju starfi. Og ekki hafa orðið neinar grundvallarbreytingar á allra síðustu árum um launamismun milli mismunandi stétta.