Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 19:26:57 (3343)

1996-02-27 19:26:57# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[19:26]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að hv. þm. er að reyna að draga athyglina frá því sem við höfum upplifað í dag að það er alls ekkert samkomulag um efni frv. á stjórnarheimilinu. Ég er ekki viss um þegar til kastanna kemur að ríkisstjórnin hafi þingmeirihluta fyrir því að standa að málum eins og gert er í frv. hæstv. samgrh. Ég man ekki betur en að a.m.k. tveir þingmenn Framsfl. hafi komið í ræðustól í dag og lýst því yfir að þeir vildu sjá að Pósti og síma yrði skipt upp þannig að ekki yrði farið út í hlutafélagavæðingu nema á símaþjónustunni. Hefur hv. þm. engar áhyggjur af því? Ég get fullvissað hv. þm. um að sameinaðir jafnaðarmenn í einum þingflokki munu ekki fara að eins og Sjálfstfl. gerir sem teymir alltaf Framsfl. með sér. Framsfl. er alltaf, í hverju málinu á fætur öðru, undir hælnum á Sjálfstfl. Við munum ekki fara eins að við að breyta ríkisstofnunum í hlutafélög eða einkavæða þau. Markmið sjálfstæðismanna er fyrst og fremst að hugsa um hagsmuni fjármagnseigenda. En það eru fyrst og fremst jafnaðarmenn sem hafa efst í huga hver verður staða og réttindi starfsfólks við slíka breytingu og hvaða áhrif hún hefur. Það hefur ljóslega komið fram í umræðunum í dag að Sjálfstfl. hefur ekki nokkrar áhyggjur af því máli.