Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Þriðjudaginn 27. febrúar 1996, kl. 19:42:32 (3349)

1996-02-27 19:42:32# 120. lþ. 96.1 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 96. fundur

[19:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur mörgum spurningum verið varpað til hæstv. samgrh. og hann hefur ekki látið svo lítið að svara nema hluta þeirra og þá eftir að margoft hefur verið kallað eftir þeim. Þar sem ég á sæti í samgn. hyggst ég ekki endurtaka þær spurningar sem ég hef ekki fengið svör við í þessari umræðu þar sem ég get kallað eftir þeim í nefnd og síðan við 2. umr. en ég hefði gjarnan viljað heyra afstöðu hæstv. ráðherra á þeirri spurningu sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði og ég hafði spurt fyrr í dag. Mun hann beita sér fyrir því að fulltrúi starfsfólks verði í stjórninni þó svo að það komi ekki fram í frv. eins og það liggur fyrir nú? Mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram hér við umræðuna.

Einnig vek ég athygli á því eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði áðan að það er algjörlega óvíst hvað verður um þann afslátt eða þau hlunnindi sem elli- og örorkulífeyrisþegar með litlar tekjur hafa hjá Pósti og síma eftir þessa formbreytingu. Það er gjörsamlega óvíst hvernig verður um það. Því verður haldið til haga hvernig þeim málum lyktar. En ég tel að það þurfi að fá svör við a.m.k. þessu tvennu. Síðan varðandi réttindi starfsmanna eins og segir í 8. gr. ,,... enda haldi þeir hjá félaginu réttindum sem þeir höfðu þegar áunnið sér hjá stofnuninni.`` Verður farið út í einstaklingsbundna samninga við þessa starfsmenn hvern og einn? (JóhS: Hann sagði já áðan.) Hann sagði það. Einstaklingsbundnir samningar við hvern og einn starfsmann. En verður fulltrúi starfsfólks í stjórninni? Ég tel fulla ástæðu til að hæstv. ráðherra svari því og einnig hvað verður um hlunnindi lífeyrisþega.