Reglur um þátttöku barna og unglinga í happdrætti

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 13:53:43 (3362)

1996-02-28 13:53:43# 120. lþ. 97.2 fundur 298. mál: #A reglur um þátttöku barna og unglinga í happdrætti# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[13:53]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég spurði reyndar í fyrstu spurningunni: Hefur ráðherra í hyggju að beita sér fyrir breytingum á þeim reglum sem gilda um þátttöku barna og unglinga í hvers konar happadrættum? Það er það sem mér finnst skipta verulegu máli ásamt þeim refsiákvæðum eða viðurlögum sem gilda ef barn verður uppvíst að því að nota spilakassa eða taka þátt í happdrætti sem það hefur ekki leyfi til samkvæmt lögum. Þá brýtur barnið eða unglingurinn auðvitað af sér, en engu að síður brýtur sá af sér sem rekur staðinn. Það væri fróðlegt að vita hvort komið hefur til refsinga í einhverju tilviki eða hvort eftirlitið er það gott að mati hæstv. ráðherra að í engu tilviki hafi verið brotið það ákvæði laga sem bannar 16 ára og yngri aðgang að söfnunarkössum og happdrættiskössum. Jafnframt væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. ráðherra finnst þátttaka barna og unglinga í happdrætti, m.a. í sjónvarpsþáttum, ekki brjóta í bága við lög um vernd barna og unglinga.