Reglur um þátttöku barna og unglinga í happdrætti

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 13:55:19 (3363)

1996-02-28 13:55:19# 120. lþ. 97.2 fundur 298. mál: #A reglur um þátttöku barna og unglinga í happdrætti# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[13:55]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Eins og ég tók fram hefur ekki farið fram að undanförnu sérstök skoðun á lögunum um happdrætti. Þau eru brotakennd og af ýmsum toga og ég tel að það sé ástæða til þess að semja nýja heildarlöggjöf um starfsemi happdrætta í landinu sem m.a. taki til þessa atriðis sem hér hefur verið gert að umtalsefni. En það hefur ekki verið unnið sérstaklega að því að undanförnu.

Mér er ekki kunnugt um að dómar hafi gengið vegna brota á þessum lögum. Ég hef ekki aflað mér sérstakra upplýsinga þar um. Það má því vel vera að svo sé, en mér er ekki kunnugt um það. Ég tel að á meðan gildandi lög ráða, eigi að framfylgja þeim og þeim aldurstakmörkunum sem þar eru. Gildir þá einu hvort um er að ræða happdrætti sem fer fram í sjónvarpi eða á öðrum stöðum. Það á að fylgja fram þeim aldursreglum sem lög og reglur kveða á um og draga þá til ábyrgðar sem þau kunna að hafa brotið.