Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:12:28 (3370)

1996-02-28 14:12:28# 120. lþ. 97.4 fundur 318. mál: #A fjárfesting erlendra aðila á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., TIO
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:12]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé full ástæða til að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að impra á þessu máli. Ég held að þær upplýsingar sem fram hafa komið séu að mörgu leyti athyglisverðar. En mig langar til þess að varpa þeirri spurningu fram hvort ekki sé rétt að skoða þetta mál í víðara samhengi, þ.e. ekki aðeins sem áhuga erlendra fjárfesta á að fjárfesta í íslensku atvinnulífi heldur áhuga sparifjáreigenda almennt til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Það er staðreynd að þeir sem eiga fjármagn á Íslandi, en það eru kannski einkum og sér í lagi lífeyrissjóðirnir, hafa ekki sýnt því áhuga eða sýnt því mun minni áhuga en æskilegt er að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Ég held að það sé mjög fróðlegt að skoða þetta í samhengi þó ekki gefist tækifæri til að ræða það í þaula við þetta fyrirspurnarform. Ég held að það sé rétt að tregða erlendra aðila til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi haldist örugglega í hendur við tregðu innlendra sparifjáreigenda til að fjárfesta í íslensku atvinnulífi.