Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:17:33 (3373)

1996-02-28 14:17:33# 120. lþ. 97.4 fundur 318. mál: #A fjárfesting erlendra aðila á Íslandi# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:17]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Tómasi Inga Olrich að það er og hefur verið tregða á undanförnum árum að fá erlenda fjárfesta inn í landið og margar ástæður kunna að vera fyrir því. Það er líka áhyggjuefni að innlendir fjárfestar skuli ekki sýna íslensku atvinnulífi meiri áhuga en verið hefur á undanförnum árum og ég held að lífeyrissjóðirnir geti gegnt þar gríðarlega mikilvægu hlutverki. Nú eru í endurskoðun lög um lífeyrissjóði. Ég þekki ekki nákvæmlega hversu langt sú endurskoðun er komin en eitt af þeim verkum sem sú nefnd átti að fara yfir og skoða sérstaklega var einmitt fjárfestingarstefna lífeyrissjóðanna. Ég held að hún geti gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki í þeim efnum. Það er áhyggjuefni en það er líka að vissu leyti ánægjulegt að núna árið 1996 og 1997 skuli vera um tíföldun á erlendri fjárfestingu í íslensku atvinnulífi að ræða. Það gefur mönnum vísbendingar um að kannski sé bjartara fram undan í þessum efnum.

Í nágrannalöndum hefur erlend fjárfesting verið í kringum 1% sem er tiltölulega lágt. Norðurlöndin hafa verið um 1% af landsframleiðslu sem hefur verið erlend fjárfesting, OECD-ríkin á bilinu 1,5--2% af landsframleiðslu. Við höfum verið með 0,1% á árunum 1993--1995. Með þeirri breytingu sem er núna að eiga sér stað með tífölduninni förum við nálægt 1% og nálgumst það sem löndin í kringum okkur er með í erlendri fjárfestingu. En hér er um tímabundna fjárfestingu að ræða og þess vegna er auðvitað mjög mikilvægt að menn átti sig á því hvernig menn ætli að halda þessu áfram. Skipulögð vinna er í gangi af hálfu bæði iðn.- og viðskrn. til að leita að erlendum fjárfestum. Nokkur dæmi vil ég nefna.

Í fyrsta lagi. Starf markaðsskrifstofu iðnrn. og Landsvirkjunar og ég vitnaði til í ræðu minni áðan að hverju er unnið. Fjárfestingarskrifstofa viðskrn. og Útflutningsráðs hefur verið að vinna að sérstöku fjárfestingarverkefni víða um land með sveitarfélögum og fyrirtækjum. Verkefnið á Reykjanesi þar sem sérstaklega er leitað að erlendum fjárfestum inn á Reykjanesi.

Í öðru lagi í samvinnu við Verslunarráðið þar sem leitað er að erlendum fjárfestum inn í starfandi fyrirtæki á Íslandi, lítil fyrirtæki.

Í þriðja lagi er komið sjálfstætt fjárfestingarverkefni í gang á Eyjafjarðarsvæðinu í samstarfi við fyrirtæki þar og hérðasnefndina til að leita að erlendum fjárfestum inn í íslenskan matvælaiðnað.

Í fimmta lagi er í undirbúningi samstarf við sveitarfélögin í Austurlandskjördæmi um sérstök fjárfestingarverkefni á sviði orkufreks iðnaðar og að skilgreina það svæði sem vænlegan kost til þess að taka á móti stóriðju. Á þann hátt er verið að undirbúa næstu skref sem þurfa að taka við þegar framkvæmdum lýkur árið 1997 við stækkun álversins í Straumsvík.