Fjárfesting Íslendinga erlendis

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 14:29:45 (3377)

1996-02-28 14:29:45# 120. lþ. 97.5 fundur 319. mál: #A fjárfesting Íslendinga erlendis# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi EKG
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur

[14:29]

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir greinargóð og skýr svör og sömuleiðis hv. þm. Pétri Blöndal fyrir athyglisvert inngrip í þessa umræðu. Það er ekki mjög þægilegt að átta sig þessu mikla talnaflóði og draga miklar ályktanir út frá þeim í fyrstu. Engu að síður er það þannig ef við skoðum þetta að það vekur nokkra athygli að um að er ræða talsverða fjárfestingu íslenskra aðila í atvinnurekstri erlendis. Það finnst mér mjög ánægjulegt við þessar tölur. Þetta eru kannski ekkert mjög háar tölur ef borið er saman við heildarfjárfestinguna á Íslandi eða landsframleiðslu okkar en þetta eru þó a.m.k. tölur sem munar um og þetta þýðir það að við erum þó þrátt fyrir allt, þrátt fyrir okkar smæð og þrátt fyrir veikburða atvinnulíf að hasla okkur völl á nýjum sviðum erlendis. Við erum þar með að afla okkur nýrrar þekkingar sem ég er alveg sammála hæstv. viðskrh. um að mun skila sér í margfeldisáhrifum inn í landið. Þetta skapar líka ný atvinnutækifæri fyrir okkar unga og vel menntaða fólk og við sjáum þá ásókn sem er í störf af þessu tagi, t.d. þegar Íslenskar sjávarafurðir auglýstu eftir fólki til starfa í Kamtsjatka í haust sóttu tugir manna um þessi störf, fólk sem stóð allt undir þeim væntingum og kröfum sem gert var til þess. Það er auðvitað athyglisvert að í þessu litla landi að okkur skyldi takast að manna stóran atvinnurekstur úti í heimi á sérhæfðu sviði en þetta tókst á mjög skömmum tíma og það segir auðvitað mikla sögu. Ég held að þetta sé þróun sem við þurfum með einhverjum hætti að ýta undir, þ.e. að auðvelda íslensku atvinnulífi að fjárfesta úti í heimi vegna þess að það hefur mjög jákvæð áhrif á þjóðarbúið í heild.