Flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:00:24 (3389)

1996-02-28 15:00:24# 120. lþ. 98.5 fundur 283. mál: #A flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES# frv. 14/1996, Frsm. EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:00]

Frsm. samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór eins og mig grunaði að það veitti ekki af að flytja nokkuð ítarlega ræðu um þetta mikilvæga mál til að upplýsa hv. þm. um hvað það snerist því að hann virðist enn þá vera staddur á hinni fornu og fræknu söguöld þegar hér voru langskip og knerrir. En þetta hefur mikið breyst eins og mörgum öðrum er væntanlega ljóst. Nú sigla miklu stærri skip á milli landa og þess vegna eru hagsmunirnir orðnir dálítið aðrir.

Af því að við hv. 15. þm. Reykv. erum að tala um sögulegar yfirlýsingar í ræðum okkar, þá var það sögulegast í ræðu hv. þm. að hann tók undir það með mér að loksins hefði fundist sannleikskornið um hinn mikla samning um hið Evrópska efnahagssvæði þar sem allt hefði fengist fyrir ekki neitt. Það væri það sem við værum að sjá í þessu frv. sem skapaði Íslendingum ótvíræðan rétt til að sigla um hin glæsilegu fljót og skipagengu vatnaleiðir Evrópu en við þyrftum hins vegar ekkert að láta í staðinn. Þetta er það sem er sögulegt við frv. Það hefur þó síðbúið sé sannað hin fleygu orð. Það er það sem mun koma þessu máli í sögubækurnar en hvorki lítilfjörlegur atbeini minn að þessu máli né heldur hinn glæsilegi atbeini hv. þm. sem hefur með þessum þætti markað djúp spor í samgöngusögu landsins með því að skilja mikilvægi málsins sem hafði öðrum dulist við 1. umr. en þá tók enginn til máls.