Flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:01:58 (3390)

1996-02-28 15:01:58# 120. lþ. 98.5 fundur 283. mál: #A flutningar á skipgengum vatnaleiðum vegna EES# frv. 14/1996, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka undir nánast allt sem hv. þm. sagði. Ég vil nota þetta tækifæri til að rifja það upp að þegar hugtakið ,,allt fyrir ekkert`` spratt upphaflega fram í þessum sölum, var verið að ræða um fræga fiskitegund. Það var fiskurinn langhali sem átti að leyfa útlendum mönnum að veiða við Ísland en reyndist ekki vera til. Það kom síðar í ljós að þessa tillögu áttu ágætir íslenskir fiskifræðingar sem vissu að það var sennilega ekki hægt að finna hann.

Það hefur verið minn flokkur sem hefur reynt að tosa flokk hv. þm. fram í nútímann. Samt megum við aldrei gleyma því að viðhorf okkar fornu áa voru jafnan góð og menn eiga að hafa þau í heiðri. Og af því að hv. þm. talaði um knerri og langskip, rifjast einmitt upp fyrir mér þjóðsöngur Grímseyinga. Ég tel rétt að fara með svo sem eitt erindi hans í þessum umræðum:

  • Þú varst fyrr af mönnum metin
  • meira en eyðisker,
  • kóngar úti í öðrum löndum
  • ágirnd fengu á þér.
  • Einn þá sendi biðilsbréfið
  • beina leið á þing,
  • þá var happ að Ísland átti
  • Einar Þveræing.