Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:32:03 (3393)

1996-02-28 15:32:03# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:32]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Landbúnaðarmál eru í ólestri og skipulag þeirra veldur neytendum og bændum verulegu fjárhagstjóni. Þannig er 46% meiri stuðningur við landbúnað hérlendis en innan Evrópusambandsins og 70% meiri stuðningur hérlendis en að meðaltali innan OECD. Þessi stuðningur veldur auk lakari lífskjara m.a. því að minna er varið til heilbrigðis- og menntamála. Þessi steingelda og hættulega stefna ríkisstjórnarflokkanna hefur leitt til miklu hærra matarverðs hér en er í Evrópu. Nú nýverið kærði Bónus hf. Osta- og smjörsöluna til samkeppnisráðs og óskaði eftir að samkeppni fengi notið sín með lækkun vöruverðs að markmiði. Niðurstaða samkeppnisráðs var ótvíræð, þ.e. að Osta- og smjörsölunni beri að veita eðlilegan afslátt á vörum sem eru ekki verðlagðar af fimm manna nefnd og að þar verði að fara að samkeppnislögum.

Annað mál sem tengist Osta- og smjörsölunni og Mjólkursamsölunni lýtur að sambærilegri kæru Bónuss hf. og varðar vörur sem falla undir búvörulög. Þar kemst samkeppnisráð að athyglisverðri niðurstöðu sem er að 7., 13. og 18. gr. búvörulaga um verðlagsnefndir landbúnaðarins brjóti gegn markmiði samkeppnislaga. Hér er um mjög alvarlegan niðurstöðu að ræða. Það er ljóst að samkeppnislög eru sett til að tryggja lægra verð og eru neytendum hagkvæm. Búvörulögin brjóta í bága við þau og einokunarsamtök landbúnaðarins halda uppi ólögmætri verðlagningu og verðsamráði við verðlagningu búvara.

Það er mjög alvarlegur hlutur ef þrenging í sérlögum eins og búvörulögin eru, tekur af lög um eðlilega viðskiptahætti. Verðlag á matvælum hérlendis er mun hærra en í nágrannalöndum og stuðningur opinberra aðila meiri. Hvar liggur þá munurinn? Hvar er ríkidæmi bænda? Einkennast kjör bænda af velmegun og ofgnótt? Nei. Síður en svo. Það er víða fátækt og þrengingar í sveitum og það er vegna rangs kerfis. Það var eitt mesta framfaraspor Íslandssögunnar þegar einokun var aflétt hérlendis í verslun fyrir rúmum 200 árum. En samt teljum við að okkur sé farsælt að halda viðskiptaháttum einokunar áfram í landbúnaði. Þetta er skaðlegt og einnig heimskulegt vegna þess að með þessu fyrirkomulagi er kjörum bænda og neytenda haldið niðri.

Annað dæmi um ranga stefnu í landbúnaðarmálum blasir við þegar úrelding Mjólkursamlags Borgfirðinga er skoðuð. Þar er varið 227 millj. af almannafé til að úrelda mjólkurbúið. Tillögur hagræðingarnefndar voru að raunveruleg hagræðing ætti að eiga sér stað. Það var ekki gert heldur var húsið boðið út til málamynda. Hér eru brotin venjuleg viðskiptalögmál. Ég tel að þetta mál sýni misbeitingu ríkisvaldsins í verndaðri atvinnugrein til að hygla tilteknum fyrirtækjum. Þetta er sósíalismi andskotans eins og Vilmundur landlæknir mun hafa sagt. Það er brýnt að þessum stjórnarháttum linni hérlendis. Í tilefni framansagðs vil ég beina eftirfarandi spurningum til hæstv. landbrh.

Bónus hf. sendi erindi til samkeppnisráðs um viðskiptahætti Osta- og smjörsölunnar og Mjólkursamsölunnar, m.a. hvað varðar verðlagningu á vörum sem falla undir ákvæði búvörulaga. Samkeppnisráð telur í svari sínu að tilteknar greinar búvörulaganna brjóti gegn markmiði samkeppnislaga.

1. Er ráðherra sammála áliti samkeppnisráðs?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir breytingum á búvörulögum þannig að þau verði í samræmi við samkeppnislög?

Vegna erindis Bónuss hf. til samkeppnisráðs um viðskiptahætti Osta- og smjörsölunnar kemur fram að ráðið telur að Osta- og smjörsalan eigi að bjóða viðskiptavinum sínum eðlilegan magnafslátt af vörum sem eru verðlagðar utan verðlagskerfis búvörulaga.

1. Er ráðherrann sammála ákvörðun samkeppnisráðs?

2. Mun ráðherrann beita sér fyrir að ákvörðun samkeppnisráðs verði virt, ekki síst í ljósi þess að viðskipti Bónuss hf. við Osta- og smjörsöluna eru um 400 millj. kr. á ári og þar af eru 240 millj. vegna vörukaupa sem falla undan verðlagsákvæðum.

Við ákvörðun um úreldingu Mjólkursamlags Borgfirðinga þar sem greitt var í úreldingarstyrk var leitað að kaupanda að eigum mjólkursamlagsins með átta daga tilboðsfresti. Þriggja spurninga er spurt varðandi það efni.

1. Telur ráðherra eðlilega staðið að málum í ljósi hins stutta tilboðsfrests?

2. Af hverju fór ráðherrann ekki að tillögum hagræðingarnefndar varðandi þetta mál?

3. Er ráðherrann reiðubúinn að beita sér fyrir endurskipulagningu í mjólkurframleiðslu þannig að samkeppnislög móti umgjörð atvinnugreinarinnar?