Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:52:46 (3398)

1996-02-28 15:52:46# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:52]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Það er ekki langur tími sem við höfum til að tjá okkur um þetta mál hér í dag. Ég vil í upphafi segja að það hefur lengi verið mín skoðun að aukin og frjáls samkeppni í framleiðslu og sölu á landbúnaðarvörum væri öllum aðilum til góða og þá ekki síst bændum. Hvað varðar úreldingu Mjólkursamlagsins í Borgarnesi tel ég ljóst að þær reglur sem ráðherra hefur sett um þetta efni og framgangsmátinn við þessa úreldingu eru allt annað en viðunandi. Ég tel mjög brýnt að það verði haldið áfram að úrelda mjólkurstöðvar því þær eru of margar og of smáar. En þá verðum við að gera það á viðunandi hátt. Ég vil því leggja til við hæstv. landbrh. að hann skoði þær reglur sem gilda um úreldingu í sjávarútvegi þar sem úreldingarsjóðurinn eignast úreltar eignir, selur þær síðan sjálfur og ber ábyrgð og eignarhald á þeim.

Hvað varðar gagnrýni hv. þm. Sighvats Björgvinssonar á Sjálfstfl. þá er það stórt orð, Hákot. Það er holur hljómur í gagnrýni Alþfl. á okkur sjálfstæðismenn varðandi þær málamiðlanir sem við þurfum að gera í þessari ríkisstjórn með Framsfl. Sjálfir geta þeir ekki einu sinni gert upp við sig hvort þeir ætli að styðja af heilum hug sjálfsagða breytingu á rekstrar- og viðskiptaumhverfi Pósts og síma, þ.e. að breyta því í hlutafélag.