Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:55:22 (3399)

1996-02-28 15:55:22# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), ÞJ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:55]

Þorvaldur T. Jónsson:

Herra forseti. Það er mjög áríðandi að upplýsa þingheim um þær rangfærslur sem hafðar hafa verið uppi í fjölmiðlum um að Kaupfélag Borgfirðinga sé í samkeppni við einkafyrirtækin með 227 millj. kr. af opinberu fé að vopni. Þessi áróður virðist sprottinn úr einum anga Hagkaupsveldisins, Sól hf., en framkvæmdastjóri þess fyrirtækis talar af mikilli vandlætingu um þessa meintu meðferð á almannafé. Það væri e.t.v. fróðlegt að fara ofan í saumana á því hversu mikið af almannafé hefur tapast á því fyrirtæki með nauðasamningum og afskriftum skulda og hversu hátt verð núverandi eigendur fyrirtækisins hafa greitt fyrir þær eignir sem eru bundnar í því. Sannleikurinn er sá að Kaupfélag Borgfirðinga rekur enga starfsemi, hvorki á sviði mjólkuriðnaðar né safagerðar, í húsakynnum fyrrum Mjólkursamlags Borgfirðinga. Hluta hússins leigir hlutafélag að nafni Engjaás ehf. sem greiðir þar sína húsaleigu og hefur engan aðgang að þeim tækjum sem fyrrum voru notuð þar til mjólkurvinnslu, hvað þá þeim fjármunum sem greiddir voru Kaupfélagi Borgfirðinga vegna úreldingarinnar. Þetta hlutafélag hefur sitt hlutafé eins og Sól hf. og önnur hlutafélög og býr að öllu öðru leyti við sömu aðstöðu og samkeppnisaðilarnir.

Herra forseti. Ég held því ekki fram að mjólkuriðnaðurinn sé hafinn yfir gagnrýni frekar en aðrir hlutar landbúnaðarkerfisins og þar er margt sem betur mætti laga að nútímasjónarmiðum um samkeppni. En þessi umræða sem hv. þm. Ágúst Einarsson flytur hér inn á Alþingi er mjög áróðurskennd og firrt og ber öll einkenni þeirrar umfjöllunar um landbúnaðarmál sem verið hefur í þjóðfélaginu undanfarin missiri og er runnin undan rifjum þeirra afla í þjóðfélaginu sem vilja beygja bændur og fyrirtæki þeirra og gera að þrælum fákeppnivaldsins í smásöluversluninni.

Annað mál eru svo reglur um úreldingu sem einnig er umhugsunarefni þegar þær leiða til þess að nýjustu og fullkomnustu fjárfestingar í atvinnugrein eru teknar úr notkun. Úrelding ætti auðvitað að miða að því að hjálpa þeim fyrirtækjum sem eru að verða undir vegna þess að þau fylgja ekki kröfum tímans um afköst og gæði til þess að hasla sér völl á nýjum vettvangi.