Verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni

Miðvikudaginn 28. febrúar 1996, kl. 15:57:13 (3400)

1996-02-28 15:57:13# 120. lþ. 98.91 fundur 208#B verðmyndun hjá Osta- og smjörsölunni# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur

[15:57]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Ég efast ekki um að stórmarkaðir eins og Hagkaup/Bónus og fleiri hafa náð árangri í að lækka vöruverð og haft mikil áhrif á íslenska verslun og vöruverð. En allt orkar tvímælis þá gert er. Ég velti því fyrir mér hvernig litla en mikilvæga matvörubúðin fer að því að lifa þetta stríð af, ef stórmarkaðirnir fá miklu lægra verð hjá matvælaframleiðslufyrirtækjunum. Við getum nefnt hér Hagabúðina, Melabúðina og smáverslanir um land allt. Blasir kannski við að verðið verði hækkað til þeirra? Stórinnkaup hjá heildsölu þýða hækkað verð til kaupmannsins á horninu, eins og hér hefur komið fram.

Það ber að varðveita heilbrigða viðskiptahætti á öllum sviðum, en skoðum málið í heild sinni. Sá stóri á að slá af sinni álagningu en ekki gera kröfu til að sá litli kaupi inn á hærra verði. Og hvað er að gerast í heiminum? Það eru fleiri stærri og merkilegri en við. Hvaða umræða fer fram í Bandaríkjunum og Frakklandi? Í Morgunblaðinu í gær stendur á forsíðu: ,,Bannað að selja með tapi.`` Þar segir, með leyfi forseta: ,,Franska stjórnin samþykkti í gær að leggja fyrir þingið frumvarp til laga um bann við því að verslanir selji vörur með tapi. Er frumvarpinu beint gegn svokölluðum ,,tilboðum`` stórmarkaðanna og jafnframt ætlað að standa vörð um litlar verslanir og framleiðendur.

Stórmarkaðir í Frakklandi og víðar laða til sín viðskiptavini með sérstökum tilboðum, t.d. með því að bjóða nautasteikina á 60--70 kr. kg í tiltekinn tíma og vegna þess hve stórir þeir eru á markaðnum þá geta þeir ráðið miklu gagnvart framleiðendum. Telja sumir að þeir hafi stundum misnotað það vald sitt.``

Í framhaldi af þessu, hæstv. forseti, skulum við rifja upp söguna. Hagkaup/Bónus hirða t.d. oft lífsbjörgina af kartöflubændum, fella kílóverð þeirra niður í 8 kr. þótt það kosti 45 kr. að framleiða kartöflur. Við þekkjum bókastríðið. En við ættum að vera sammála um eitt. Tökum málið upp í heild sinni og skoðum það út frá neytendum, út frá sjónarmiði framleiðenda og smáverslunarinnar á Íslandi sem er mikilvægur hlekkur og má ekki deyja út í þessari blindu samkeppni.