Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 11:50:23 (3411)

1996-02-29 11:50:23# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, GHH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[11:50]

Geir H. Haarde:

Herra forseti. Þegar litið er til baka yfir síðasta ár eða svo er ljóst að þetta tímabil hefur verið mjög viðburðaríkt í norrænu samstarfi á þeim vettvangi sem við þingmenn þekkjum best til, þ.e. á vettvangi Norðurlandaráðs. Núna er nákvæmlega ár síðan þing ráðsins var haldið í Reykjavík þar sem teknar voru mikilvægar ákvarðanir um framhald þessa samstarfs sem síðan var fylgt eftir síðar á árinu á þingum í Kaupmannahöfn og í Kuopio í Finnlandi og margs konar starfi hinna ýmsu nefnda, ekki síst forsætisnefndar á tímabilinu.

Þær breytingar sem hafa verið gerðar að umtalsefni eru miklar og margvíslegar en þær gerast auðvitað ekki í tómarúmi ótengdu öðru því sem er að gerast á hinum pólitíska vettvangi í löndunum. Það er ekki hægt að ræða þessi mál samhengislaust eða eins og Íslendingar gætu t.d. einir ráðið þessari ferð án tillits til þess sem er að gerast í öðrum löndum. Menn geta auðvitað rætt þetta út frá sjónarmiðum sinnar eigin óskhyggju. Það er hins vegar ekki mjög gagnlegt, menn verða að horfast í augu við þær staðreyndir og þann raunveruleika sem við blasir. Það sem við blasir er að þrátt fyrir að Norðurlöndin þrjú séu nú orðnir aðilar að Evrópusambandinu er fullur pólitískur vilji í löndunum öllum til þess að halda áfram hinu gamla og gróna norræna samstarfi en með þeim breytingum sem óhjákvæmilegar og nauðsynlegar eru og út á það hefur þetta ferli gengið.

Ég tel að við Íslendingar verðum að sjálfsögðu að virða þær ákvarðanir sem önnur lönd taka um samstarf sitt, t.d. í Evrópumálum eða aðild að öðrum bandalögum. Hins vegar skulum við fagna því hversu eindreginn sá ásetningur er annars staðar á Norðurlöndum að eiga áfram samstarf við okkur og við Norðmenn á hinum hefðbundna norræna grundvelli. Enda þótt margir horfi með söknuði til þess tíma þegar Norðurlöndin voru ein og sér í sínu gamalgróna norræna samstarfi býður framtíðin að mínum dómi upp á mjög margt spennandi í þessu samstarfi þó að ekki felist nákvæmlega það sama í því og áður var. Það er t.d. alveg ljóst að einstaklingsbundnum tillögum þingmanna í Norðurlandaráði um hin ýmsu svokölluðu góðu málum mun fækka. Samstarfið verður í öðru formi. Það verður meira bundið ráðstefnum um tiltekið málefni, svokölluðum þemafundum, eins og formaður Íslandsdeildar gerði grein fyrir. Það er ýmislegt þess háttar þegar ákveðið og á döfinni, í næstu viku er m.a. sérstök ráðstefna um framtíðarmálefni Evrópu sem hefur verið vandað vel til. Það er sömuleiðis á döfinni í næsta mánuði ráðstefna um heimskautasvæðin sem hefur verið í undirbúningi í langan tíma og verður haldin í Kanada með þátttöku Kanadamanna, Bandaríkjamanna og Rússa, að sjálfsögðu fullburðugri þátttöku Norðurlandaráðs sem er frumkvæðisaðili að þessu samstarfi eins og menn vita þar sem hæstv. núv. utanrrh. átti mjög mikilvægan hlut að máli.

Jafnframt er á döfinni sameiginlegur fundur ráðsins með baltneska ráðinu nú í aprílmánuði þannig að Norðurlandasamstarfið, Norðurlandaráð, er að færa kvíarnar út fyrir sín hefðbundnu landamæri. Menn hljóta að fagna því að hægt er að finna þessu samstarfi vettvang og form með þessum hætti í stað þess að einbeita sér einvörðungu að þeim málum sem í hinu nýja skipulagi tilheyra hinni svokallaðri Norðurlandanefnd sem er hið gamalkunna, hefðbundna norræna samstarf sem eftir sem áður er allra góðra gjalda vert, menningarmálin, réttindi hins almenna borgara og fleira þess háttar en það er ekki lengur hið eina sem um er fjallað á þessum vettvangi.

Vikið hefur verið að því í þessari umræðu að Íslendingar sem þjóð þyrftu að halda vöku sinni og vissulega er það rétt. Menn hafa lýst áhyggjum af því að flokkasamstarfið sem verður meira áberandi en áður geti verið varhugavert fyrir okkur Íslendinga og að við pössuðum kannski ekkert inn í það. Auðvitað geta menn fært fram ýmis rök að þessu leyti. Það er t.d. alveg ljóst að miðjuhópurinn í Norðurlandaráði er mjög margbreytilegur hópur þar sem starfa að mig minnir 15 eða 17 stjórnmálaflokkar og margir frá sumum löndum á svæðinu. Engu að síður geta menn náð þar saman um hin mikilvægustu atriði þó að ágreiningur sé um aðra hluti. Ég bendi á að þrátt fyrir að menn hafi lýst áhyggjum af því að Íslendingum kunni að farnast illa í þessu flokkasamstarfi hefur þetta starf skilað þremur Íslendingum inn í forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Ekki á grundvelli þess hvaðan menn eru upprunnir heldur á grundvelli þess í hvaða flokkahópi þeir starfa. Það er rétt sem formaður Íslandsdeildar sagði að þetta skipulag mun gera meiri kröfur til þess að menn séu virkir í flokkasamstarfinu en ef menn eru það þá þurfa menn engu að kvíða um það að starf þeirra verði virt af vettugi eða ekki metið að verðleikum.

Eitt af því sem í undirbúningi hefur verið á þessu ári er flutningur skrifstofu Norðurlandaráðs frá Stokkhólmi til Kaupmannahafnar þar sem hún á að verða framvegis undir sama þaki og skrifstofa hinnar norrænu ráðherranefndar. Þetta er m.a. gert til þess að ná fram meiri hagkvæmni í þessum rekstri m.a. vegna ítrekaðra krafna og sjónarmiða um að spara sem ekki skal gert lítið úr því að vissulega verður sparnaður til framtíðar þó þessir flutningar auðvitað kosti sitt meðan þeir standa yfir. Hugmyndin er ekki síður sú að efla samstarfið og fá meira út úr því starfsumhverfi sem þarna mun skapast, fá meira pólitískt innihald út úr þessu samstarfi. Það er að mínum dómi ekkert vafamál að staða þingmanna til þess að hafa áhrif á ráðherranefndina mun breytast til batnaðar með flutningunum vegna þeirrar miklu nálægðrar sem þarna verður þá framvegis milli þessara aðila. Ég sé ekki ástæðu til þess að örvænta um þetta samstarf. Það er engin ástæða til þess. Ég bendi líka á, eins og hefur komið fram í umræðunni, að matið á hinu norræna notagildi hinna ýmsu norrænu stofnana er nú að skila ánægjulegum árangri. Menn höfðu af því vissar áhyggjur þegar fyrsta skýrslan um það mál kom fram hér fyrir nokkru síðan að það gæti stefnt í óefni, það væri ekki gert á málefnalegum forsendum að því er varðaði allar þessar stofnanir. Ég tel að eins og það mál hefur nú þróast sé ekki hægt að halda uppi í það minnsta almennum ágreiningi eða gagnrýni á þetta starf heldur sé það að þróast inn í mjög svo skynsamlegan og eðlilegan farveg þar sem endurmati er beitt á starfsemi stofnana sem kallar síðan á ákveðna endurnýjun, endurskipulagningu og viðbrögð við breyttum aðstæðum. Ég tel að það sé mjög jákvætt og sýni reyndar að norræna samstarfið er ekki staðnað heldur getur það verið dýnamískt og lagað sig að breyttum tímum. Það er líka ánægjuefni að þær norrænu stofnanir sem staðsettar eru á Íslandi hafa komið vel út úr þessu mati.

[12:00]

Ég ætla ekki að fjalla að þessu sinni um Schengen-samstarfið. Við höfum rætt það hér í þingsalnum við eitt tækifæri og það mál er í vinnslu og kemur vonandi til umræðu síðar í vor. Þar er að mörgu að hyggja og það mál er alls ekki einfalt.

Í lokin langar mig að víkja að Vestnorræna samstarfinu sem hv. 8. þm. Reykv. gerði að umtalsefni. Það er vissulega rétt hjá honum að það er eðlilegt að ræða það mál í nánum tengslum við skýrslurnar um norræna samstarfið vegna þess að það er auðvitað hluti af því þó því hafi verið komið fyrir í sérstöku samstarfsráði, Vestnorræna þingmannaráðinu. Þótt Vestnorræna þingmannaráðið eigi fullan rétt á sér tel ég að það sé í sjálfu sér ekki skynsamlegt að einangra þessa starfsemi algjörlega utan við hið almenna norræna samstarf. Það er reyndar ekki hægt að gera það. Vestnorræna samstarfið er hugsað til þess að efla þingmannasamstarf þessara þriggja ríkja sem eiga jafnframt öll aðild að Norðurlandaráði. Hins vegar tel ég skynsamlegt fyrir þetta samstarf að reyna líka að færa út kvíarnar. Mér er ánægjuefni að hafa átt hlut að máli að því er varðar það að Vestnorræna þingmannaráðið fékk boð sem sjálfstæður aðili um að taka þátt í ráðstefnu Norðurlanda og annarra um heimskautamálefni sem haldin verður í Kanada nú í næsta mánuði og ég hef þegar vikið að. Ég held að þar séu verkefni sem vestnorræna samstarfið passar vel inn í og sem hægt er að tengja saman báðum til góðs, bæði vestnorrænu ríkjunum og þeim sem núna vinna að stofnun heimskautaráðs, norðurheimskautsráðs á þeim vettvangi sem þegar hefur verið getið um. Einnig þarna tel ég að séu ýmsir framtíðarmöguleikar og ástæðulaust að gera lítið úr þeim.

Virðulegi forseti. Að endingu þakka ég eins og aðrir sem hér hafa talað af hálfu Íslandsdeildarmanna samstarfið á þessu síðasta starfsári. Það hefur verið afskaplega gott og hvað sem líður skiptingu íslenskra þingmanna í flokkahópa á hinum norræna vettvangi hafa þeir starfað mjög vel saman á breiðum pólitískum grundvelli innan Íslandsdeildarinnar.