Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:03:31 (3412)

1996-02-29 12:03:31# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:03]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að mikilvægt sé að þróa þá hugsun sem kom að nokkru leyti fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv. hér áðan að það verði með einhverjum skipulegum hætti reynt að formbinda hið vestnorræna samstarf við hið norræna samstarf þó þannig að hið vestnorræna samstarf geti með einhverjum hætti haldið sjálfstæði sínu. Ég held að það sé mjög vandasamt að þróa hið vestnorræna samstarf öðruvísi áfram vegna þess að ekki er hægt að búast við því að það nái að lifna og dafna öðruvísi en að það sé lifandi þáttur af þeirri samstarfsheild sem er í gangi á Norðurlöndum. Ég held að þær tilraunir sem hafa verið uppi í þá veru að þróa vestnorræna samstarfið að nokkru leyti frá hinu norræna samstarfi af vissum pólitískum ástæðum sem menn þekkja og eru að sumu leyti eðlilegar hafi kannski ekki verið mjög skynsamlegar að öllu leyti og nauðsynlegt sé að þróa þá hugsun sem hér kom fram hjá hv. þm. og ég rakti hér áðan varðandi tengslin á milli hins almenna norræna samstarfs og hins vestnorræna samstarfs. Þá er ég bæði að tala um formleg tengsl, ég er að tala um pólitísk tengsl og ég er líka að tala um fjárhagsleg tengsl vegna þess að einn meginvandi vestnorræna samstarfsins er sá að það hefur ekki neina fjármuni til að vinna fyrir. Mér líka það athyglisvert sem hv. þm. sagði. Hann sagði: Það er fullur vilji til að halda uppi hinu norræna samstarfi og það er fullur pólitískur vilji til þess. Það er fagnaðarefni og það er hlutur sem ég veit að hann tekur þátt í því að styðja af myndugleik sjálfur. Hins vegar missti hann út úr sér, sennilega óvart, setningu sem var þessi: ,,en hið norræna samstarf er auðvitað góðra gjalda vert``. Hið norræna samstarf er góðra gjalda vert en hin almennu tengsl út fyrir hið norræna svæði eru farin að taka hugi manna hálfa. Það er umhugsunarefni að mínu mati.