Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:05:56 (3413)

1996-02-29 12:05:56# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, GHH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:05]

Geir H. Haarde (andsvar):

Herra forseti. Nú veit ég ekki hvort hv. síðasti ræðumaður fór alveg rétt með mitt mál. Mig minnir að ég hafi sagt að hið gamalgróna norræna samstarf væri góðra gjalda vert og ég stend við það. Samstarfið á menningarsviðinu, um réttindi borgaranna og allt það sem þetta hefur snúist um á undanförnum áratugum, mun auðvitað halda áfram. Vettvangurinn fyrir það er Norðurlandanefndin. En það er bara ekkert ,,bara það`` lengur. Þó það sé góðra gjalda vert og þó við eigum að efla það og styðja, halda því áfram og styrkja dugar það ekki eitt og sér lengur og við fáum heldur ekki þá þátttöku í þessu samstarfi þeirra lykilmanna úr norrænu stjórnmálalífi ef þetta á bara að snúast um þessa þætti. Ég held að okkur hafi tekist að forma þetta nokkuð skynsamlega í þeim breytingum sem nú er búið að samþykkja með því að taka þarna inn Evrópumálefni, nærsvæðamálefni og jafnvel fleira sem kemur upp á vettvangi forsætisnefndar. Hitt mun halda áfram, þetta ,,gamalgróna góðra gjalda verða`` norræna samstarf en það mun ekki verða það eina í framtíðinni því við verðum að útvíkka þetta eins og fram hefur komið.