Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:20:47 (3416)

1996-02-29 12:20:47# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:20]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sjónarmið sem mér finnst endurspeglast í ræðu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að Norðurlandasamstarfið sé það mikilvægasta erlenda samstarf sem við höfum átt og munum væntanlega og vonandi eiga áfram vegna þess að það eru mín sjónarmið að hvert svo sem vegir liggja sé okkur mjög mikilvæg sú samheldni og það samstarf sem þarna hefur verið byggt síðustu áratugi.

Þingmaðurinn setti upp mjög áhugaverða kenningu um að þróa betur og efla íslenska utanríkisþjónustu til að bæta úr því sem hann óttast að verði, en það er minna samráð innan Norðurlanda og Norðurlandaráðs þannig að hið pólitíska samráð verði eflt í gegnum utanrrn. Mér fannst það mjög athyglisvert sjónarmið sem þingmaðurinn setur fram og mér finnst ljóst að í því felst mikill ótti um að samráðið á Norðurlandaráðsvæng sé að minnka eða takmarkast mjög. Ég lít svo á að einmitt þessi þáttur, borgararéttindin og félagslegi rétturinn og þeir samningar og sáttmálar sem við höfum búið til á norræna svæðinu hafi verið mjög mikilvægur og í hann hljótum við að reyna að halda eins lengi og unnt er. Mig langar að spyrja hv. þm. hvort óttinn sem speglast í orðum hans stafi af breytingum sem nú hafa orðið á norræna samstarfinu og þá því formi og þeim ramma sem Norðurlandasamstarfinu verður nú búinn eða hvort hann telji að það sé ástæða til að óttast breytingar fyrst og fremst vegna aðildar sumra Norðurlandanna að Evrópusambandinu og hinum auknu áherslum á evrópska samstarfið. Ég spyr vegna þess að það hefur verið óbifanleg trúa mín að jafnt þau lönd sem kjósa að vera innan Evrópusambandsins og þau sem velja að standa utan þess, skiptir norræna samstarfið mjög miklu máli, bæði fyrir innbyrðis tengingu til að hafa áhrif inn í Evrópusambandið og fyrir þau sem velja að standa utan þess, til að taka þátt í umræðunni og fá einhvern veginn að koma að ákvarðanatöku og umfjöllun. Þess vegna bregður mér nokkuð að heyra áhyggjur hv. þm. og spyr hvort þær eigi rætur í þessum breytta ramma eða hvort það sé almennt vegna þessara breyttu áherslna í samvinnu innan Evrópu.