Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:37:25 (3421)

1996-02-29 12:37:25# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, samstrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tel eins og margir aðrir að þessi umræða hafi verið mjög gagnleg. Það hefur margt komið fram í henni sem er þess eðlis að það hlýtur að vekja nokkra athygli. Ég held að það standi upp úr þessari umræðu að það er þrátt fyrir allt mjög góð samstaða um það af okkar hálfu að standa vörð um norrænt samstarf og lítill áherslumunur á milli flokka í því samhengi, jafnvel þótt menn kunni að telja að það sé hægt að fara mismunandi leiðir til að ná sömu markmiðum. Það er mjög eðlilegt og hlýtur að vera mikilvægt að slík umræða fari fram.

Áleitnasta spurningin sem fram hefur komið í þessari umræðu er þó kannski sú sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir bar fram, en hún orðaði hana einhvern veginn svo: Erum við að halda dauðahaldi í norrænt samstarf, samstarf sem á litla framtíð fyrr sér? Það er mikilvægt að svona spurning sé sett fram. En ég verð að svara því fyrir mig að ég tel að norrænt samstarf eigi mikla framtíð fyrir sér, en þá verðum við líka að ræða í hvaða samhengi það er. Norrænt samstarf er ekki eingöngu inn á við, þótt það samstarf sé mjög mikilvægt. En það sem er að aukast verulega er norræna samstarfið út á við. Þá skiptir mestu máli að hve miklu leyti norrænu þjóðirnar eru tilbúnar til að fylgjast að í norrænu samstarfi út á við. Það hafa þær gert í gegnum tíðina í ýmsum alþjóðastofnunum og í margvíslegu samstarfi á alþjóðlegum vettvangi. Það er alveg ljóst að þetta hefur að nokkru leyti breyst vegna þeirrar staðreyndar að þrjú ríkjanna hafa gengið í Evrópusambandið. Ísland og Noregur hafa komist að þeirri niðurstöðu að það þjóni ekki hagsmunum þeirra að verða samferða hinum Norðurlöndunum í því samstarfi.

Í þessu sambandi er mikilvægt að íhuga hvort það skipti ekki afar miklu máli fyrir norrænt samstarf að norrænu þjóðirnar reyni að fylgjast að í öllu alþjóðlegu samstarfi ef þær telja þess nokkurn kost. Það er t.d. alveg ljóst að það hefur skipt okkur Íslendinga miklu máli í samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins að þar hafa Norðmenn og Danir líka verið þátttakendur. Það hefði verið sterkara fyrir okkur og öll Norðurlöndin ef Finnar og Svíar hefðu verið það líka, að ég tala nú ekki um ef þetta bandalag verður stækkað mjög verulega. Þá munu áhrif Norðurlandanna verða minni innan þeirrar heildar, en mundu hins vegar aukast ef hin löndin gengju inn. Það er að sjálfsögðu þeirra mál að ákveða hvort það verður með sama hætti og það er okkar mál að ákveða hvort við gerumst þátttakendur í Evrópusambandinu þegar fram líða stundir. Um það skal ekkert fullyrt á þeirri stundu, en við höfum svarað fyrir okkur að við teljum það a.m.k. ekki tímabært eins og akir standa, hvað svo sem komandi pólitískir aðilar og komandi kynslóðir kunna að ákveða í því sambandi.

Norræna vegabréfasambandið og Schengen-samstarfið er einmitt þáttur sem þarf að íhuga í þessu samhengi. Ég tel að við eigum að sækjast eftir því að vera með í því samstarfi ef við teljum það geta þjónað okkar hagsmunum og framtíð í norrænni samvinnu. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við séum ekkert að halda dauðahaldi í eitthvað sem eigi litla framtíð fyrir sér. Við erum að reyna að gera okkar til að styrkja norrænt samstarf vegna þess að við vitum að það styrkir stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Það styrkir stöðu okkar meðal Norðurlandanna, en ekkert síður á alþjóðlegum vettvangi.

Svo var annað mikilvægt atriði sem hv. þm. Svavar Gestsson varpaði fram. Stöndum við að málum með þeim myndugleik sem til þarf? Væri ekki ástæða til, eins og hann varpaði fram, að taka sig meira út úr, láta bera meira á sér og skapa okkur meiri sérstöðu? Ég er þeirrar skoðunar að við höfum farið alveg rétt að í þessu samhengi. Við höfum gengið inn í hið pólitíska samstarf í flokkahópum og annars staðar og við höfum gert það af myndugleik. Við höfum haldið okkar stöðu af fullum myndugleik í þessu sambandi, ekki með því að skapa okkur einhverja sérstöðu, heldur með því að taka þátt í breytingunum og hafa áhrif á þær. Það var hið rétta og það höfum við gert. Ef við hefðum farið öðruvísi að, skapað okkur sérstöðu og staðið utan við, hefðum við ekki haft þau áhrif sem við höfum haft. Við höfum haft full áhrif á framvinduna og getað ráðið úrslitum um margt. En við höfum gert það með jákvæðum hætti og gert það vegna þess að það hefur verið krafa uppi um það víða að það ættu sér stað breytingar sem ekki verður hjá komist.

Varðandi einstök atriði og einstakar spurningar sem hér hafa komið fram vil ég fyrst taka fyrir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði um Norræna menningarsjóðinn. Honum eru gerð skil á bls. 73 í þessari skýrslu. Það hefur ekki verið gert áður. Ég tek undir það að hann er að sjálfsögðu mikilvægur þáttur í norrænu samstarfi og ber að taka hans mál fyrir eins og málefni annarra stofnana. En í þessari skýrslu er gerð grein fyrir starfsemi hans, þótt auðvitað mætti gera það ítarlegar.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði um norrænu þjóðfræðistofnunina eða Nordiska instituttet för folkdiktning. Það er rétt að það stendur til að leggja þá stofnun niður en þó alls ekki að leggja starfið niður. Það er gert ráð fyrir að það haldi áfram og það hefur komið tilboð frá háskólanum í Åbo um að yfirtaka þetta starf með þeim hætti að stofnunin haldi nafni sínu og hún verði bundin háskólanum í framtíðinni. Í því er verið að vinna. Þarna fer fram mikilvægt starf og ef það getur farið fram með hagkvæmari og ódýrari hætti í tengslum við þennan ágæta háskóla, er það af hinu góða. Það er ekki verið að leggja til að leggja þetta starf niður, en það er ekki talið nauðsynlegt að viðhalda sjálfstæðri stofnun með þeim tilkostnaði sem þar þarf til til þess að halda því áfram.

[12:45]

Ég vil segja eitt um vestnorræna samstarfið. Það sem er sérstakt við það er að það er samstarf innan Norðurlandasamstarfsins. Það er öðruvísi en samstarfið við Eystrasaltið þar sem fram fer samstarf milli Norðurlandanna annars vegar og Eystrasaltsríkjanna hins vegar og það sama á við um Rússland. Ég tek undir það sem hv. þm. Svavar Gestsson sagði. Ég er sammála honum um að það er ekki nægilega vel til þess hugsað hvaða styrkur geti orðið í þessu samstarfi og að það vantaði tengingu við önnur svæði og önnur lönd umhverfis þetta svæði til þess að gera það að styrkari heild í norrænu samstarfi. Það er m.a. vegna þessarar hugsunar sem heimskautssamstarfið hefur nú fengið meiri kraft. Það er meiri áhugi fyrir því vegna þess að með því tengjumst við betur löndunum fyrir vestan okkur og löndunum sem tengjast norðrinu alveg eins Eystrasaltssamstarfið tengist löndunum í kringum Eystrasaltið. Við höfðum af því vissar áhyggjur að áherslurnar í norræna samstarfinu væru að færast of mikið í austur og suður. Það vantaði þar mótvægi til þess að Ísland gæti haldið sem sterkastri stöðu í þessu samhengi.

Út af því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði um Kanada, þá er það nú svo að það mun ekki gerast að mínu mati mjög mikið, því miður, á fundum í Kanada í næsta mánuði. Það var gert ráð fyrir því að þá yrði gengið frá stofnun heimskautaráðsins. Það verður ekki og eftir því sem ég best veit verður tiltölulega lítil þátttaka umhverfisráðherra í þeim fundi ef hún verður þá nokkur. Í júní er hins vegar stefnt að því að þá geti átt sér stað fundur þar sem reynt verður að ganga frá stofnun ráðsins. Þessu hefur seinkað, því miður. Ég tel enga ástæðu til að vera með neina svartsýni í sambandi við niðurstöðu málsins. En það er ljóst að þetta ætlar að taka lengri tíma en við héldum í upphafi og þess vegna var mikilvægt að samstarfsráðherrar Norðurlandanna gengu frá samstarfsáætluninni núna á síðasta fundi einmitt til þess að leggja áherslu á vilja Norðurlandanna í þessu máli þannig að hann verði ekki dreginn í efa.

Að lokum tek ég undir það sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni um að það er mikilvægt að styrkja utanríkisþjónustuna meir vegna þess sem er að gerast. Það er alveg ljóst að við getum ekki í sama mæli á öllum sviðum treyst á samstarfið við hin Norðurlöndin. Við þurfum að styrkja utanríkisþjónustu okkar líkt og Norðmenn hafa verið að gera. Norðmenn fjölguðu mjög í sinni utanríkisþjónustu vegna væntanlegrar þátttöku í Evrópusambandinu. En þótt ákvörðun hafi verið tekin um að Noregur gengi þar ekki inn hafa þeir alls ekki dregið í land heldur þvert á móti eflt utanríkisþjónustu sína og sinnt málum og margvíslegu samstarfi af mun meiri krafti en við gerum. Þetta ber að viðurkenna. En við stöndum frammi fyrir því sem lítil þjóð að reyna að sinna öllu því mikilvægasta sem er á ferðinni. Ég hef lagt á það áherslu eftir að ég kom í utanrrn. að tengja utanríkisþjónustuna betur norrænu samstarfi en þar hef ég meira tækifæri vegna þess að ég sinni jafnframt Norðurlandamálunum. Ég tel að með því séum við Íslendingar að sýna jafnframt hversu mikla áherslu við leggjum á Norðurlandasamstarfið. Ég hef ekki orðið var við neitt annað, hvorki af hálfu samstarfsráðherra né utanríkisráðherra en að einlægur vilji sé af hálfu þeirra manna sem þar eru í fyrirsvari að viðhalda sterku norrænu samstarfi og leggja áherslu á það. Það er hins vegar alveg rétt eins og hér hefur komið fram að það eru ekki alls staðar sömu áherslurnar, hvorki í embættismannakerfinu né annars staðar. Það þarf að vinna á móti því. Það er ánægjulegt til þess að vita að Danir sem eru nú búnir að vera í Evrópusambandinu í 20 ár skuli leggja jafnríka áherslu á norrænt samstarf nú og raun ber vitni. Þeir hafa lært þá lexíu að Evrópusamstarfið kemur ekkert í staðinn fyrir norræna samstarfið. Þetta eru mikilvæg skilaboð af hálfu Dana, skilaboð sem jafnframt hafa borist til Svía og Finna sem eðlilega eru mjög uppteknir af Evrópusamstarfinu vegna þess að þeir eru að byrja þar. En ég vænti þess að reynsla Dana verði til þess að norræna samstarfið eigi mikla framtíð fyrir sér og það er mikil ástæða fyrir okkur Íslendinga að leggja mikla áherslu á það.