Norræna ráðherranefndin 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 12:59:12 (3425)

1996-02-29 12:59:12# 120. lþ. 99.1 fundur 329. mál: #A Norræna ráðherranefndin 1995# skýrsl, 337. mál: #A norrænt samstarf 1995# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[12:59]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör við fyrirspurnum mínum. Ég ætla ekki að fara að óska eftir frekari upplýsingum þó að lengi megi spyrja hvar málum sé komið, t.d. varðandi stöðu norrænna þjóðfræða undir merkjum háskólans í Åbo. Norrænt samstarf getur verið háð því að til sé fjármagn. En tilefni andsvars var ábending hæstv. ráðherra varðandi Dani og áhuga Dana á að viðhalda norrænu samstarfi. Það er allrar athygli vert sannarlega bæði fyrr og síðar. Danir bjuggu við það lengi að vera einir Norðurlanda innan Evrópusambandsins. Nú hafa þeir fengið Svía og Finna sér við hlið og þeir hafa lengsta reynslu þjóða Norðurlanda af þessu samstarfi og þeir hafa engst í þessu samstarfi allan tímann og full ástæða er fyrir okkur Íslendinga að fylgjast náið með stöðu Dana innan Evrópusambandsins og þá dýrkeyptu reynslu sem þeir búa að innan þessa samstarfs. Áhyggjur þeirra þessa stundina eru ekkert minni en meðan þeir voru einir og það tengist þeim breytingum sem eru á dagskrá innan Evrópusambandsins m.a. um að minnka vægi lítilla ríkja, breyta samstarfinu og gera það meira ákvarðandi, meira yfirþjóðlegt en það er nú þegar í dag og dönsku sjónarmiðin hafa verið þar í minni hluta. Þeir hafa óttast um sinn hag eins og niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar á sínum tíma bar vott um og þeir hafa enn þá þungar áhyggjur. Við skulum fylgjast með Dönum og hvernig þeir hafa siglt þarna og hverjar áhyggjur þeirra eru. Þar gætum við lært ýmislegt af í framtíðinni.