Vestnorræna þingmannaráðið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 13:43:02 (3427)

1996-02-29 13:43:02# 120. lþ. 99.3 fundur 324. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið 1995# skýrsl, 325. mál: #A samþykktir Vestnorræna þingmannaráðsins 1995# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[13:43]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrir þann sem hefur átt sæti í Norðurlandaráði og tekur sæti í Vestnorræna þingmannaráðinu er það mjög mikil breyting. Maður upplifir mjög sterklega hversu ólík staða það er að vera þingmaður í samstarfi þessara þriggja landa sem eiga svo margt sameiginlegt og er svo mikilvægt að taka sameiginlega á mörgum málum og hvernig það hefur verið að vinna að málum á milli Norðurlandanna og hversu formlegt og sterkt það samstarf hefur verið. Samstarfið í Vestnorræna þingmannasambandinu er þess eðlis að þingmennirnir sem slíkir eiga sitt samstarf fyrst og fremst í gegnum árlegan fund sinn. Má segja að það skipulag sé fremur óformlegt þar sem fulltrúar hittast ekki allir nema í þetta eina skipti og svo landsdeildaformennirnir e.t.v. einu sinni miðsvetrar. Það er þessi þáttur sem við, sem nú skipum Íslandsdeild Vestnorræna þingmannaráðsins, höfum verið að fjalla um að undanförnu og sem þingmannasambandið í heild hefur tekið til umræðu á fundi sínum í Grænlandi í sumar. Er hægt að breyta þessu? Er þetta óumbreytanlegt fyrirkomulag? Er þetta fullnægjandi? Er þetta fyrst og fremst huggulegheitasamstarf sem ber það í sér að við, Íslendingar, Færeyingar og Grænlendingar hittumst sem fulltrúar þessara landa á norðurslóð og reynum að kortleggja það í hverju okkar leið fari saman en að öðru leyti séum við að vinna að hagsmunum þessara landa á öðrum sviðum og innan annars samstarfs?

[13:45]

Í umræðunni um skýrslu Norðurlandaráðs í morgun að það sem væri ólíkt samstarfinu í Vestnorræna þingmannasambandinu kom fram að þetta væri samstarf innan Norðurlandaráðs og það er alveg hárrétt. Þetta er samstarf landa innan Norðurlandaráðs. Það gerir það að verkum að á meðan tillögur eru lagðar fram í Norðurlandaráðinu, samþykktar í ráðinu, og ganga síðan til ráðherranefndar og komast í framkvæmd í gegnum ráðherrasamstarfið þarf að bera fram ályktanir ársfundar Vestnorræna þingmannasambandsins í þingunum og reyna að þoka málum fram í gegnum framkvæmdarvaldið. Auk þess er engin fjárhagsstaða hjá þessu sambandi til að vinna einhver verkefni sjálfstætt og því mjög þröngur stakkur sniðinn.

Við höfum rætt þetta hlutskipti og hvernig Vestnorræna þingmannasambandið hefur birst í umræðunni innan Norðurlandaráðs. Ég hef haldið því fram að í Norðurlandaráði sendum við fulltrúar frá vestnorrænu löndunum tvískipt skilaboð og þessi skilaboð eru gjarnan: Ekki gleyma okkur í vestnorrænu löndunum. Munið eftir okkur í vestnorrænu löndunum. Á sama tíma er verið að fjalla um aukið samstarf inn á St. Pétursborgarsvæðið, við Eystrasaltslöndin og yfirleitt inn á hið forna Hansa-svæði. Hins vegar eru skilaboðin: Ekki skilja okkur eftir í Vestnorræna, við erum órjúfanlegur hluti af Norðurlandasamstarfinu. Þetta hafa oft verið mjög undarleg skilaboð og ekki síst í menningarsamstarfinu höfum við fundið það vel hvernig við þurfum að vera í stöðunni ,,haltu mér --- slepptu mér`` innan Norðurlandasamstarfsins þar sem við erum að reyna að halda þessum hlutum til streitu. Það fer ekki hjá því að Vestnorræna þingmannasambandið verður að velta því fyrir sér og reyna að kortleggja hvaða áhrif þær breytingar sem búið er að taka ákvörðun um í Norðurlandaráði hafa.

Það er engan veginn ljóst fyrir okkur hvort að þessi breyting eigi eftir að hafa áhrif til batnaðar eða hvort samstarfið á eftir að flosna upp á einhvern hátt innan þessara breytinga. Það er það sem við höfum verið að reyna að átta okkur á og það var mjög mikilvægt að fulltrúi Vestnorræna fengi að koma sem áheyrarfulltrúi á síðasta Norðurlandaráðsþing og áhugavert að heyra frá fulltrúum okkar þar hvaða líkur eru á því að slíkt verði varanlegt ástand.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að Alþingi Íslendinga reyni að átta sig á því hvernig við sjáum fyrir okkur að þetta samstarf geti verið og í hvaða átt það eigi að þróast. Fyrir utan það sem ég hef þegar nefnt er þetta samstarf þess eðlis að eitt fullvalda ríki er í samstarfi við tvær þjóðir með heimastjórn, þjóðir sem heyra undir Danmörku, og það flækir stöðuna til viðbótar því sem ég hef áður gert að umtalsefni. Vegna alls þessa er mjög mikilvægt fyrir okkur að reyna að endurskoða þetta samstarf og þeir þingfulltrúar sem sátu ársfundinn í fyrra voru allir sammála um það að þeir vildu efla það. Þeir vildu finna leiðir til þess að gera samstarfið snarpara og öflugra og að beinn árangur og ávinningur yrði af störfum þingmanna í þessu starfi. Það var mjög mikilvægt fyrir okkur sem mættum þarna til leiks í Grænlandi að Geir H. Haarde, þáverandi forseti Norðurlandaráðs, skyldi koma á fundinn og vera með okkur þar, fjalla um breytingarnar á Norðurlandaráði og hlusta á þau sjónarmið sem komu fram á ársfundinum. Ég vil nota tækifærið til að þakka þingmanninum fyrir að hafa gefið sér tíma til þessa fyrir utan að þetta var ánægjuleg för.

Ég hef nefnt möguleikana á að senda áheyrnarfulltrúa á þing Norðurlandaráðs en eins og fram kemur á bls. 2 og 3 í skýrslunni er þess getið að Vestnorræna þingmannaráðið hafi skipað vinnuhóp til þess að vinna að nýju skipulagi fyrir ráðið. Sá sem hefur tekið sæti í þessum vinnuhópi mun fjalla um þær hugmyndir sem eru settar þarna fram í einum fjórum liðum. Það er mjög áhugavert að velta því fyrir sér hver staða þessa samstarfs er, einmitt og ekki síst í tengslum við að fram undan er stofnun heimskautsráðs og fyrsti fundur í Kanada í næsta mánuði fyrir utan fund Norðurlandaráðs hér á Íslandi. Hvaða áhrif er hugsanlegt að þetta hafi? Stofnun heimskautsráðs með þessum sömu löndum ásamt fleiri löndum á norðurhveli. Hvaða áhrif hefur það að við verðum komin með slíkt samstarf, að við erum með Norðurlandasamstarfið, að við erum með svo margvíslegt samstarf á vettvangi Evrópu og svo þetta litla, notalega en að mínu mati mikilvæga samstarf þessara þriggja landa, Færeyja, Grænlands og Íslands? Hver verður hlutur þess? Aðilar sem gáfu umsögn um hugmyndir sem settar voru fram af þingmannaráðinu hafa nefnt sem möguleika til þess að efla og treysta stoðir samstarfsins að Norður- og Vestur-Noregur kæmu inn í samstarf Vestnorræna. Ég læt þá skoðun mína í ljós að ég tel að það sé ekki vænlegur kostur. Ég held að það sé ekki styrking fyrir samstarf þessara þriggja landa að hlutar úr landi eins og Noregi komi og sé með. Ég tel að þau vandkvæði sem fylgja því að þessi þrjú lönd eru ekki jafnsett munu frekar aukast en hitt ef við tökum inn í samstarfið hluta af því fullvalda ríki sem Noregur er. Ég hef frekar lagst gegn því í umræðunni þó að við séum ekki búin að taka neinar ákvarðanir um slíkt.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í gegnum allar tillögurnar. Ég býst við að fulltrúi okkar sem sækja mun fund vinnuhópsins og fjalla um þessa þætti muni gera það mun ítarlegar en það eru nokkrir þættir sem ég vil nefna í sambandi við þetta. Það fyrsta er stofnun heimskautsráðsins og það er hugsanlega innlimum Norður- og Vestur-Noregs inn í Vestnorræna þingmannaráðið sem mér finnst óviturlegt og skynsamlegra að bíða með og sjá hverju fram vindur með heimskautsráðið áður en lengra er gengið í því. Síðan finnst mér mikilvægt að við reynum að skoða hver hlutur og hlutverk Vestnorræna þingmannasambandsins á að vera gagnvart Vestnorræna sjóðnum. Það höfum við einmitt rætt með tilliti til þess hversu fjárvana sambandið er og þar með vanmegnugt til þess að fara í einhver bein verk sem kosta eitthvað.

Vissulega er ekki hægt að ræða um þessa þætti öðruvísi en að koma inn á það sem hefur verið talin forgangsröðun í störfum Vestnorræna þingmannaráðsins en það er þróun atvinnulífs og efnahagur, menning, menntun og samgöngur og aðstæður í samgöngu- og ferðamálum. Mér hefur sýnst sem svo að af þeim þáttum, sem hafa verið settir í forgang, hafi mest borið á samstarfi þessara landa varðandi samgöngumálin og ferðamálin. Minna hefur farið fyrir beinum samskiptum, þ.e. á einhverju víðtækara sviði og út fyrir þetta samband en þó tengt starfi Vestnorræna sambandsins á vegum menningar og menntunar. Einmitt þess vegna tókum við það til sérstakrar umræðu á ársfundinum í sumar hvort hægt væri að fá því breytt að nemendaskipti færu eingöngu fram á milli Norðurlandanna sem þýðir að ungmenni frá Færeyjum og Grænlandi geta ekki tekið þátt í nemendaskiptum milli Færeyja og Grænlands eða frá Færeyjum því að þau geta að sjálfsögðu komið til Íslands. Ef ekki væri hægt að hafa þau áhrif á að hægt væri að breyta þessu og opna möguleikana á samskipti ungmenna innan vestnorræna svæðisins væri hugsanlegt að við reyndum t.d. að efla þessi menntunartengsl ungmenna með því að reyna að koma á einhvers konar miðstöð sem ungmenni frá bæði Færeyjum og Grænlandi gætu sótt í, að ungmenni frá Færeyjum og Grænlandi gætu komið hingað til Íslands og átt samskipti hér, nemendahópar frá öllum þremur löndunum. Þetta er engan veginn útfært eða sett fram sem nein formleg tillaga en við höfum rætt þetta á þessum fundi með hvaða hætti við getum stuðlað að samskiptum ungmenna á milli þessara þriggja landa og þar með e.t.v. inn í þá menntunarmöguleika sem norræna samstarfið býður upp á milli landanna.

Þessa þætti alla og hvað verður ofan á í því sem hefur verið sett fram sem hugmyndir í vinnu hópsins verður að sjálfsögðu að skoða nánar hjá okkur á fundi sem haldinn verður á Íslandi í sumar og fróðlegt að vita hvernig okkur tekst til. Það hefur líka verið talað um að útbúa bæklinga og vera með betri upplýsingar um stöðu þessara landa en það verður að segjast eins og er, virðulegi forseti, að staða þessa samstarfs er fremur fljótandi. Ef við miðum þetta samstarf við önnur formlegri og öflugri sambönd sem við höfum við önnur lönd, hvort sem það er EFTA, Evrópuráðið, Norðurlandaráðið eða NATO, er eins og þau hafi öll einhvern fastari grunn að standa á en þetta samstarf. Ég lít svo á að hluti af vandanum sé einmitt að starfið er innan Norðurlandaráðs og það er Ísland með tveimur löndum með heimastjórn.

Ég ætla að láta þetta nægja sem vangaveltur mínar um skýrsluna. Ég hef mjög mikinn áhuga á því að okkur takist að hleypa meiri krafti og meiri festu í samstarfið á milli þessara þriggja landa. Við eigum miklu meira sameiginlegt en menn hafa oft reynt að leiða hugann að og þó að þjóðirnar, ekki síst sú grænlenska og sú íslenska og færeyska, séu kannski fremur ólíkar enda uppruninn annar, er svo margt sem tengir og ótrúlegt hversu margt það er sem tengir þessi lönd saman.

Virðulegi forseti. Mér finnst það vera þríþætt að Alþingi samþykki tillögu sem þessa. Í fyrsta lagi er verið að styðja menningarverk listamanna í löndunum þar sem þetta verkefni hefur verið tekið fyrir og skilað af sér með miklum sóma. Verið er að varpa ljósi á ólíkar aðstæður en samt þar sem menn tengja einhverjum sameiginlegum tengslum þessara landa og varpa ljósi á menningaráhrif sem verið er að skila til barna og ungmenna í gengum slíka kvikmyndagerð og auk þess sem myndir af þessum toga eru að mínu mati eru mjög hollt myndefni fyrir börnin okkar. Þess vegna legg ég mikla áherslu á að Alþingi samþykki þessa tillögu.