Vestnorræna þingmannaráðið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:07:44 (3429)

1996-02-29 14:07:44# 120. lþ. 99.3 fundur 324. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið 1995# skýrsl, 325. mál: #A samþykktir Vestnorræna þingmannaráðsins 1995# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:07]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Svavars Gestssonar tel ég að það hafi verið nauðsynlegt að hreyfa við Vestnorræna lánasjóðnum. En það er ekki þar með sagt að menn þurfi að rjúka til og leggja þetta starf niður ef það er vilji nágranna okkar að viðhalda því og breyta. En það er með þetta starf eins og allt annað að það þarfnast skoðunar og sjálfsagt að endurskipuleggja það.

Ég get tekið undir með hv. þm. að það vantar hrygginn í þetta samstarf. Það hefur alltaf vantað í það hrygginn. Það var tekin sú ákvörðun að efna til vestnorræns þingmannasamstarfs án þess að setja upp samsvarandi samstarf milli ríkisstjórna eða milli þessara þjóða. Ég játa að ég hef verið heldur andvígur því að setja upp slíkt formlegt samstarf þótt ég sé mikill fylgismaður þess að starfa með þessum grannþjóðum okkar. Ég vil ekki að það sé misskilið. Ég skrifaði undir samninginn um Vestnorræna lánasjóðinn sem samstarfsráðherra á sínum tíma. Hann var undirritaður á Höfn í Hornafirði og var merkilegur sjóður þegar til hans var stofnað. En auðvitað þarf að endurskoða það.

Ég hef verið andvígur því að efna til slíks formlegs ráðherrasamstarfs vegna þess að ég óttast að þar með misstu hin Norðurlöndin áhuga á samstarfinu við þessa aðila og þætti þá á margan hátt þægilegt að þetta samstarf væri komið í einhvern ákveðinn farveg. Þá þyrfti ekki lengur að fjalla um þessi mál á hinum stærri samnorræna vettvangi. Með sama hætti og við Íslendingar tökum þátt í Eystrasaltssamstarfinu, Evrópusamstarfinu, samstarfinu við Rússland, samstarfinu og í Barentshafi, sem skiptir okkur ekki jafnmiklu máli og t.d. Rússa og Norðmenn og þær þjóðir sem starfa við Eystrasaltið, er það jafn mikilvægt fyrir okkur að hinar Norðurlandaþjóðirnar sem hafa ekki jafnmikilla hagsmuna að gæta á þessu svæði taki fullan þátt í þessu samstarfi þannig að það sé ekki eitthvert einangrað fyrirbæri frá öðru Norðurlandasamstarfi. Það er það sem við upplifum í sambandi við vestnorræna þingmannasamstarfið. Það er nokkuð einangrað fyrirbæri frá öðru norrænu samstarfi. Það verður að viðurkennast. En það er ekki þar með sagt að þingmenn þessara þjóða eigi ekki að hafa með sér gott og náið samstarf og jafnframt ríkisstjórnir þessara þjóða. En það má aldrei verða til þess að hinar þjóðirnar láti þetta eiga sig og vilji ekki koma að því. Ég lít svo á að þetta samstarf sé í vissri kreppu og það þurfi að ákveða hvaða hryggur verði settur í það. En hvað svo sem gerist í þeim efnum, verður það góða samstarf og sú góða vinátta sem er á milli okkar og þessara grannþjóða okkar að haldast. Breytingarnar mega aldrei leiða til þess að það verði skilið á þann hátt, hvorki meðal Færeyinga né Grænlendinga, að Íslendingar hafi ekki fullan hug á að eiga gott samstarf við þessa frændur okkar.