Vestnorræna þingmannaráðið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:14:49 (3431)

1996-02-29 14:14:49# 120. lþ. 99.3 fundur 324. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið 1995# skýrsl, 325. mál: #A samþykktir Vestnorræna þingmannaráðsins 1995# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:14]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel þetta eðlilegar ábendingar sem koma fram hjá hv. þm. en vil benda á að í tengslum við það starf sem hefur farið fram innan Norðurlandaráðs um undirbúning á samstarfinu á norðurheimskautssvæðinu hefur jafnframt verið rætt um það. Ég hef tekið þátt í umræðum um að samræma það svæðasamstarf sem fer fram á öllu þessu svæði. Það á við um vestnorræna samstarfið. Það á við um Barentssamstarfið og það á við um svokallað Nordkalotten samstarf þannig að það er margt annars konar svæðasamstarf sem fer þarna fram og það vantar að samræma það. Skoðanir mínar hafa því gengið í þá átt að það ætti að fara fram heildarendurskoðun á öllu þessu samstarfi sem ég tel að nokkru leyti vera hafið. Ég tel að það sé mjög gott að nú sé þetta bréf komið fram og tel nauðsynlegt að taka það með í þá endurskoðun sem nú fer fram og þá framtíðarsýn sem er í gangi að því er varðar þetta samstarf í stærra samhengi. Það tengist að sjálfsögðu líka samstarfi við Skotland og það svæði því að við megum ekki gleyma því að þar voru norrænir menn og þar er fólk af norrænum uppruna sem hefur mikinn áhuga á því að tengjast samstarfi á þessum slóðum við Norðurlandaþjóðirnar.