Vestnorræna þingmannaráðið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:22:10 (3435)

1996-02-29 14:22:10# 120. lþ. 99.3 fundur 324. mál: #A Vestnorræna þingmannaráðið 1995# skýrsl, 325. mál: #A samþykktir Vestnorræna þingmannaráðsins 1995# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég átti ekki við það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði að Barentssamstarfið ætti með einhverjum hætti að yfirtaka vestnorræna samstarfið. Þvert á móti hef ég fremur verið talsmaður þess að líta á það samstarf sem fram fer núna í kringum Barentshafið í enn víðara samhengi, þ.e. að öll heimskautssvæðin komi að því. Ég hef verið talsmaður þess að útvíkka það og það samstarf tæki fremur yfir Barentssamstarfið. Það verður að koma í ljós. Og auðvitað verður Barentssamstarfið að halda áfram undir þeirri regnhlíf en jafnframt undir norrænni regnhlíf. Með sama hætti getur vestnorræna samstarfið átt sér stað undir þeirri regnhlíf, en jafnframt undir norrænni regnhlíf.

Ég var bara að benda á að ég hef orðið var við þennan áhuga hjá Dönum. Þeir eru þátttakendur í Barentssamstarfinu sem ein Norðurlandaþjóðanna en eru áhugasamir um að það fram fari athugun á því hvort svæðin eins og sumir líta á, sjálfstjórnarsvæðin Færeyjar og Grænland komi að því samstarfi eins og ýmis ,,sjálfstjórnarsvæði`` í Rússlandi og héruð í Noregi sem koma að þessu samstarfi með sjálfstæðum hætti og ásamt ríkisstjórnunum. Það væri svona álíka og ef einhver svæði á Íslandi, Vestmannaeyjar eða Þingeyjarsýslur og sveitarfélögin á þeim svæðum eða sveitarfélögin á Suðurnesjum o.s.frv. gætu jafnframt tekið þátt í ákveðnu samstarfi. Ég vil bara koma þeim upplýsingum á framfæri að ég tel þess vegna ástæðu til að líta á þessi mál í miklu víðara samhengi.