ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:47:46 (3443)

1996-02-29 14:47:46# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:47]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég hef fylgst með þessum orðaskiptum af mikilli athygli og ég tel að hér sé tekið á grundvallarmáli varðandi þátttöku okkar í þessum erlendu bandalögum, nefndum og ráðum sem Alþingi á kost á að sækja. Ég held að það sé a.m.k. einnar messu virði að fara að orðum hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur og reyna að leggja það niður fyrir sér hvort það er þess virði að eyða takmörkuðu fjármagni í þetta starf. Er það þess virði að smyrja okkur þunnt yfir svona víðan flöt? Hún spurði hv. þm. Pétur Blöndal líka að því hvort honum þætti það peninganna virði að sækja þessi þing. (Gripið fram í: Og mannskaps.) Og mannskaps. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur einmitt allra þingmanna harðast gengið fram í því að gagnrýna óþarfa bruðl og eyðslu. Og hann hefur sett mörgum okkar gott fordæmi með þeirri gagnrýni. En það sem mér fannst vanta í málflutning hans, þar sem hann er fulltrúi okkar þarna, er mat á því hvort það hefur við rök að styðjast, sem ég þóttist greina í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur, hvort það sé kannski ekki atorkunnar og fjármagnsins virði sem í þetta fer að halda úti manni í þessari starfsemi. Mér skildist, herra forseti, að það sem hv. þm. væri að segja í síðasta andsvari væri nákvæmlega það að menn ættu ekki að eyða dýrmætum tíma hans og dýrmætu fjármagni Alþingis til þess að sækja þessi þing. Ég, herra forseti, tek mark á hv. þm. Pétri H. Blöndal. Þegar hann segir svona hluti hlýtur það að byggjast á hans einlæga mati. Telur ekki hv. þm., eftir að hafa sett fram þessi viðhorf sín, að það væri eðlilegast og rökréttast fyrir hann að leggja þegar í stað til að Alþingi Íslendinga dragi sig út úr þessum samtökum og hætti að sækja þing þeirra?