ÖSE-þingið 1995

Fimmtudaginn 29. febrúar 1996, kl. 14:53:40 (3446)

1996-02-29 14:53:40# 120. lþ. 99.5 fundur 312. mál: #A ÖSE-þingið 1995# skýrsl, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur

[14:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst menn vera að blanda hér saman óskyldum málum og það með heldur ófarsælum hætti. Annars vegar að ræða um starfshætti stofnana og hins vegar að varpa rýrð á ákveðin samtök og þau markmið sem verið er að vinna að. Það er mjög auðvelt að höfða til þess að við Íslendingar erum fáir og fátækir og smáir og höfum ekki efni á því að taka virkan þátt í alþjóðasamstarfi og alþjóðasamtökum. Það er málflutningur sem ýmsir leggja eyru við og vissulega þurfum við að gæta þar ákveðins hófs, það er engin spurning. Allir geta verið sammála því að það þurfi að reyna að hafa áhrif á að alþjóðasamtök séu ekki að öll að grauta í sama hlutnum ef hægt er að ná hnitmiðaðra starfi. En viðfangsefni Ráðstefnunnar um öryggi og samvinnu í Evrópu er það stórt að mér finnst að það eigi að vera hlutur Íslendinga að reyna að treysta þau samtök. M.a. með það að markmiði að það komi ekki upp nýtt járntjald í álfunni sem veruleg hætta getur verið á með ýmsum hætti, pólitískt og viðskiptalega. Úfar eru það miklir, einnig hernaðarlega. Við erum því að tala um samtök þar sem ekkert er til staðar í dag sem kemur í staðinn fyrir þau. Auðvitað eigum við að leggja okkar lóð á þá vogarskál að bæta starf þeirra en ég held að það sé mjög þess virði að fulltrúi frá Alþingi Íslendinga fylgist með því sem þar er gert, einnig það sem er gagnrýni vert og flytji okkur fregnir af því hér inn á þennan vettvang. Við eigum ekki að loka á þátttöku í jafnþýðingarmiklum stofnunum og þarna er um að ræða.